Tækifærið til að hamla útbreiðslu Kórónaveirunnar er að ganga okkur úr greipum

Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) segir að tækifærið til að hamla útbreiðslu Kórónaveirunnar svo hún verði ekki að heimsfaraldri sé að renna út. Fjöldi fólks hefur sýkst um helgina á Ítalíu, Suður Kóreu, Íran og fleiri löndum og sumir hinna sýktu hafa engin þekkt tengsl við Kína.

Fyrstu dauðsföllin vegna Kórónaveirunnar eru nú staðfest í Mið-Austurlöndum. Sex eru látnir í Íran, að sögn fréttastöðvarinnar Al Jazeera, og hafa nýsmit greinst í Ísrael og Líbanon. Tveir hafa látist á Ítalíu, þar sem heilu bæjarfélögin hafa verið sett í sóttkví.

Flest staðfest smit utan Kína eru í Suður Kóreu, þar sem 433 tilfelli hafa greinst og tveir látist á skömmum tíma.

Tedros Adhanom Ghebreyesus, yfirmaður WHO, segir að tækifærið til að takmarka útbreiðslu veirunnar sé að ganga okkur úr greipum. Hann varar við því að ástandið geti orðið mjög slæmt ef ríki heims taki ekki höndum saman við að hamla útbreiðslunni.

Til skoðunar er að takmarka mjög ferðir fólks og er viðbúið að ferðamannasumarið 2020 í heiminum muni finna mjög fyrir slíku með tilheyrandi afleiðingum fyrir efnahag margra landa.