Telur framgöngu tveggja starfsmanna RÚV lögbrot og brot á siðareglum

Andrés Magnússon blaðamaður.

Andrés Magnússon, blaðamaður á Viðskiptablaðinu, hefur gagnrýnt þá Eirík Guðmundsson og Helga Seljan, fjölmiðlamenn á Ríkisútvarpinu (RÚV) harðlega, í rýni sinni um hlutleysi fjölmiðlamanna á félagsmiðlum.

Í því samhengi dró hann fram þá staðreynd að RÚV hefur hlutleysisskyldu að lögum, sem er áréttuð aukalega í siðareglum stofnunarinnar. Andrés telur að fyrrgreindir fjölmiðlamenn hafi brotið hvorttveggja í opinberri umræðu.

„Margir innlendir fjölmiðlamenn taka dyggan þátt í þjarkinu á félagsmiðlum, oftast sennilega um fréttir. Flestir gera þeir það af þeirri hófsemd, háttvísi og heiðarleika, sem ætlast má til,“ segir Andrés í rýninni.

Vanstilling og hótanir vegna ráðningar útvarpsstjóra

Eiríkur Guðmundsson.

„En það eru líka dæmi um að menn sleppi sér í stöku hitamálum. Nú eða hin vanstillta færsla Eiríks Guðmundssonar á RÚV um að ef einhver sjálfstæðismaður yrði ráðinn útvarpsstjóri þá yrði bylting. „Það er ekki bara hótun, heldur loforð.“ —

Sem sagt ofbeldi heitið nema einhver pólitískt þóknanlegur Eiríki verður ráðinn yfirmaður hins öldungis ópólitíska ríkisútvarps!

Þetta var auðvitað galið og raunar furðulegt að ekkert hafi frekar heyrst frá RÚV um þessa ofbeldishótun. Ekki þó síður sérkennilegt í ljósi þess að um árið þurfti að grípa til sérstakra ráðstafana eftir að Eiríkur misnotaði útvarpsþáttinn Víðsjá — þátt fyrir áhugafólk um listir og menningu —  til þess að flytja rammpólitíska pistla um eigin skoðanir.

Fréttamaður Kveiks stillir sér upp sem málsaðila í Samherjamálinu

Helgi Seljan.

Samherjamálið er mönnum enn í fersku minni og þar hefur framganga Helga Seljan vakið mesta athygli, ef ekki aðdáun. Hins vegar má einmitt setja spurningamerki við framgöngu hans á félagsmiðlum í framhaldinu. Þar er hann vart í hlutverki fréttamanns lengur, heldur hefur hann stillt sér upp andspænis forsvarsmönnum Samherja, svona nánast eins og hann eigi aðild að málinu. Það gengur ekki.

Nú hafa Samherjamenn deilt á eitt og annað í fréttaflutningnum og sjálfsagt mismikil efni í, án þess að hér verði nokkur efnisleg afstaða tekin til þess alls. En hafi fréttunum verið í einhverju ábótavant, nú þá er bara að leiðrétta það, en hitt má rökstyðja og sjálfsagt að Ríkisútvarpið árétti það. En það á ekki að gerast í persónulegum færslum Helga á félagsmiðlum, hvað þá með því að hann sé að senda Samherjamönnum tóninn. (Í því samhengi skiptir auðvitað einnig máli þáttur Helga í upphafi Seðlabankamála Samherja.) 

Framganga mannanna geti ekki hafa farið framhjá yfirstjórn RÚV

Það er alls ekki útilokað að fleiri fréttir kunni að felast í Samherjamálinu, flókið og langvinnt sem það var, en hvernig getur almenningur treyst Helga til þess að fjalla um það af sanngirni, þegar hann stendur nú uppi sem sérstakur andstæðingur Samherjamanna í opinberri umræðu? Þátttakandi en ekki fréttamaður. Sem einnig veikir trúverðugleika RÚV í málinu. Algerlega að óþörfu.“

Að lokum segir Andrés: „Það getur ekki hafa farið fram hjá yfirstjórn RÚV ohf., hvorki stjórn né æðstu yfirmönnum í Efstaleiti. Samt viðgengst það. En um leið eru þeir þá einnig að gerast sekir um að fara ekki að lögum og brjóta siðareglurnar.“