Þá og nú: Algjör U-beygja Sigurðar Inga gagnvart vegtollum á aðeins einu ári

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra hefur tekið algjöra U-beygju í afstöðu sinni til vegtolla á einu ári. Í byrjun desember í fyrra tilkynnti hann að áform um vegtolla til að fara í brýnar framkvæmdir hefðu verið blásin af, enda talaði hann gegn þeim ásamt öðrum framsóknarmönnum fyrir alþingiskosingar í fyrravetur. Nú aðeins tólf mánuðum seinna fer þessi sami samgönguráðherra fram á að þingið samþykki umfangsmikla gjaldtöku á um allt land fyrir jólaleyfi þingsins.

Sigurður Ingi sagði á þingi í dag, að viðbúið sé að hefðbundnar tekjur ríkisins af bensíni og dísel muni fara minnkandi með nýjum orkugjöfum. Fátt bendir þó til að grundvallarbreyting hafi orðið í því máli undanfarna mánuði, eða frá því hann var algjörlega andsnúinn því að fara þessa leið og hét kjósendum Framsóknarflokksins því að vegtollar væru ekki á dagskrá.

Starfandi formaður samgöngunefndar, Jón Gunnarsson fv. samgönguráðherra sem talaði mjög fyrir veggjöldum í ráðherratíð sinni, segir um grundvallarbreytingu að ræða. Með þessu sé hægt að auka framkvæmdahraðann, verkefnið verði ekki leyst nema til komi nýjar leiðir.

Jón Gunnarsson fv. ráðherra.

Áform eru uppi um að veggjöld verði samþykkt um land allt nú fyrir jól, einkum er horft til jarðganga og stærri umferðaræða í því samhengi.

Á móti í desember í fyrra

Hinn 5. desember fyrir rúmu ári, sagðist Sigurður Ingi vera búinn að blása af áform um veggjöld á helstu samgönguæðum. Það væri ekki inni í myndinni lengur.

Í frétt Ríkisútvarpsins þennan dag sagði:

„Nei, það er ekki stafkrókur um veggjöld í stjórnarsáttmálanum,“ segir Sigurður Ingi.
Þannig að það eru engar áætlanir um slíkar aðgerðir?
„Nei, þær voru lagðar til hliðar sem og ýmsar aðrar álögur sem stóð til að leggja á bíla, þó svo við séum að taka upp græna skatta eins og kolefnisskatta.“

Nokkrum dögum síðar var ráðherrann mættur í Víglínuna á Stöð 2, þar sem hann gekk enn lengra:

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra segir að það sé misskilningur að fjármögnun vegaframkvæmda með vegtollum muni flýta fyrir slíkum framkvæmdum. Ekki sé hægt að fara í öll þau verkefni sem kallað hefur verið eftir á sama tíma.

„Misskilningurinn sem hefur legið hérna í loftinu ósvarað í heilt ár er að við það að setja upp vegtollahlið við Reykjavík og á þá sem þurfa vinnu sinnar og athafna vegna að keyra þar í gegn, að það muni flýta framkvæmdum hérna á höfuðborgarsvæðinu. Það er bara alrangt.“