Miklu máli skiptir að forystumenn stjórnarflokkanna þriggja átti sig á því að stóra prófraunin á samstarf þessara þriggja flokka er framundan, þ.e. kjarasamningar.
Þetta segir Styrmir Gunnarsson, fv. ritstjóri Morgunblaðsins, í pistli á heimasíðu sinni í dag.
„Stóra ágreiningsmálið í þeim samningum er sú tilfinning stórra hópa launþega að í landinu búi tvær þjóðir en ekki ein og að önnur þeirra hafi nýtt sér aðstöðu sína til að bæta eigin hag umfram hina.
Fram að þessu virðast stjórnarflokkarnir þrír og forystumenn þeirra ekki hafa áttað sig á þessu eða neitað að horfast í augu við þennan veruleika.
Það skiptir hins vegar öllu máli að þeim takist að gera það. Ella getur líftími þessarar ríkisstjórnar orðið styttri en vonir hafa staðið til,“ segir Styrmir.