Þekkt er skaðsemi þess fyrir heilsuna að fá of lítinn svefn. En færri vita að það getur líka verið hættulegt heilsu fólks að sofa of lengi og ættu þeir sem finnst fátt betra en sofa út á morgnana, að endurskoða þann ávana.
Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem bendir til að svefntími fólks hafi bein áhrif á líkamlega heilsu og lífslíkur þess.
Rannsóknin, sem er ritrýnd og birtist í tímaritinu European Heart Journal, byggir á gögnum um 116 þúsund manns á aldrinum 35 til 70 ára frá tuttugu og einu landi. Eftir eftirfylgni, sem að jafnaði stóð yfir í átta ár, liggja fyrir tölur um 4.381 dauðsfall úr þessum hópi og 4.365 alvarleg tilvik af hjartasjúkdómum.
Fólk sem sefur lengur en átta tíma á nóttu á frekar á hættu að deyja eða þróa með sér hjarta- eða æðasjúkdóma en þeir sem sofa 6-8 tíma á nóttu.
Þannig benda niðurstöður rannsóknarinnar til þess að 9-10 tíma nætursvefn feli í sér 17% meiri líkur á alvarlegum sjúkdómum af þessu tagi og þeir sem sofa að jafnaði meira en tíu tíma á nóttu séu ríflega fjörtíu prósent líklegri til þess að fá hjarta- eða æðasjúkdóma.
„Almenningur ætti að geta að því að ná að jafnaði 6-8 tíma svefn á nóttu,“ segir einn höfunda greinarinnar, Salim Yusuf, prófessor í McMaster háskólanum í Ontario í Kanada.
„Á hinn bóginn ætti fólk að leita til læknis og fara í almenna heilsufarsskoðun, ef það sefur að jafnaði meira en níu tíma á nóttu,“ bætir hann við.
Á vefnum doktor.is segir:
Of lítill svefn hefur mjög fljótt áhrif á athygli okkar og einbeitingu, auk þess sem við finnum fyrir orkuleysi og pirringi. Geta okkar til að takast á við það sem dagurinn hefur upp á að bjóða verður minni og það getur auðveldlega komið niður á starfi okkar, fjölskyldu og félagslífi. Rannsóknir sýna að langvarandi svefnleysi getur bitnað á andlegri og líkamlegri heilsu okkar.
Svokölluð líkamsklukka stjórnast að miklu leyti af reglubundnum dægursveiflum á líkamsstarfssemi og birtubreytingum í umhverfi okkar. Góðar og reglubundnar svefnvenjur eru því lykilatriði þegar kemur að því að tryggja góðan nætursvefn.
- Hungur truflar svefn og sama gildir um að vera of saddur.
- Líkamleg áreynsla í formi daglegrar hreyfingar leiðir til betri svefns
- Forðast á örvandi drykki að kvöldi, sérstaklega með koffeini s.s. kaffi, te, kóla- og suma orkudrykki.
- Áfengi getur hjálpað spenntum manni að sofna en það truflar svefninn og sama gildir um tóbak
- Tryggja þarf ró í umhverfi og huga áður en lagst er til svefns. Forðast að taka áhyggjurnar með í rúmið
- Gefðu líkamanum skilaboð um að hann sé að fara í hvíld með því að dempa ljósið og hætta tölvuvinnu/sjónvarpsáhorfi tímanlega fyrir svefn.
- Gott rúm bætir svefninn og í herberginu ætti að vera hæfilegur hiti, myrkur og kyrrð.
- Ekki liggja andvaka í rúminu, farðu fram í smástund og gerðu eitthvað allt annað og reyndu svo aftur að sofna
- Svefnlyf geta hjálpað í stuttan tíma en notkun þeirra til lengri tíma er árangurslaus og jafnvel skaðleg.