Þegar forseti Alþingis gekk undir heitinu „Madame Butterfly“

Í leiðara Morgunblaðsins sl. föstudags var vikið að þeim fregnum að Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hefði boðist til að stíga (a.m.k. tímabundið) til hliðar sem formaður Umhverfis- og samgöngunefndar þingsins til þess að friður skapaðist í nefndinni.

Var ljóst að leiðarahöfundi, sem líklegt er að sé fv. forsætisráðherra landsins, þótti ekki mikið þess koma, að Bergþór væri hrakinn úr formennsku fyrir framgöngu sína á Klausturbar.

Af því tilefni var rifjuð upp fræg saga af Steingrími J. Sigfússyni, nú forseta Alþingis, sem lengi hefur farið milli stjórnmálamanna og rifjuð upp á mannamótum. Fór svo að Árni Johnsen, fv. þingmaður, gerði henni skil í bók sinni, Lífsins melódí.

Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra, er ritstjóri Morgunblaðsins.

Grípum fyrst niður í leiðara Davíðs, sl. föstudag:

„Þing­menn hafa ótal sinn­um setið að sumbli, utan lands. Af því eru til sög­ur, sann­ar og logn­ar, og koma hinir mæt­ustu menn við sögu, sum­ir löngu dán­ir sögu­fræg­ir og dáðir. Forðum var um­hend­is að sitja á hleri og þótti jafn­vel skamm­ar­legra en skraut­legt tal. Á löng­um tíma hef­ur margt verið talað eft­ir að vínið tryggði að mönn­um varð laus­ari tung­an en endra­nær. Sjálfsagt fengi fæst af slíku tali feg­urðar­verðlaun þótt í minn­ingu gleðskap­ar­manna hafi margt verið löðrandi í snilld.

Það get­ur ekki ráðið því hvort maður sé formaður nefnd­ar hvort hann hef­ur setið að sumbli með jafn­ingj­um sín­um og sagt meira en hann sjálf­ur síðar kaus. Það væri annað mál hefði maður­inn vilj­andi hrópað skæt­ing­inn yfir lýð sem kom eng­um vörn­um við. Nú er látið eins og að sök­in fel­ist í því að hafa verið hleraður. En varla fær það staðist. Þar með væri þing­heim­ur að telja að ekki sé leng­ur sak­næmt að aka öku­tæki ofurölvi. Lög­brotið fel­ist í því að láta nappa sig. Hin bann­færða regla, sé hún til og skyndi­lega praktíseruð, hlýt­ur að vera sú að hafa ölvaður í lokuðum hópi sagt eitt­hvað sem alls­gáðir væru ólík­leg­ir til. 

Ef talið væri að slíkt at­hæfi úti­lokaði að slík­ir yrðu nefnd­ar­for­menn, svo ekki sé talað um þing­for­seta, þyrfti rann­sókn og yf­ir­heyrsl­ur í hvert skipti. Ein­stak­lingi sem t.d. í þing­manna­hópi vel slompaðra hefði stolið stærsta fiðrildi í heimi af skrif­stofu um­hverf­is­ráðherra og jafn slompaður farið óboðinn í af­mæli til fv. for­sæt­is­ráðherra og gefið hon­um þar hið stolna fiðrildi hlyti eft­ir það að vera all­ar frama­bjarg­ir bannaðar.“


Forvitni manna hefur verið vakin af minna tilefni og fór því tíðindamaður Viljans á stúfana og varð sér úti um bók Árna, þar sem gleggri grein er gerð fyrir þessari sögu af þingforsetanum okkar.

Árni Johnsen var lengi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, en einnig reyndur blaðamaður og höfundur fjölmargra bóka.

Fer bókarkaflinn hér á eftir, en hann ber heitið:

Madame Butterfly

Þegar Steingrímur Hermannsson hætti sem formaður Framsóknarflokksins bauð hann þingmönnum flokksins heim til sín í Arnarnesið. Sama dag fundaði fjárlaganefnd og samgöngunefnd á Hótel Sögu með fulltrúum Stéttarsambands bænda um stöðuna í hagsmunamálum bænda. Fundinum lauk með kvöldverði á Hótel Sögu.

Í miðjum kvöldverði stóð Haukur Halldórsson, formaður Stéttarsambandsins, upp og tilkynnti að rúta í Arnarnesið biði fyrir utan Sögu og að þingmenn Framsóknarflokksins ættu að fara þangað. Þeir stóðu allir upp og fóru og Eggert Haukdal líka. Hann kom þó fljótlega inn aftur.

Big Red: Steingrímur heitinn Hermannsson fv. forsætisráðherra.

Sama kvöld var lokahóf í umhverfisráðuneytinu hjá fótboltaklúbbi þingsins en forseti hans, Steingrímur J. Sigfússon, hafði vélað Össur Skarphéðinsson, þáverandi umhverfisráðherra, til þess að gefa vín úr skápum ráðuneytisins í hófið.

Þegar líða tók á kvöldið var farið að grynnka allverulega í vínskápum ráðuneytisins og höfðu sumir áhyggjur af því, ekki síst Steingrímur J. sem var mjög þyrstur þennan dag.

Þarna voru auk Steingríms J. og Össurar margir mektarmenn; Finnur Ingólfsson, Guðmundur Árni Stefánsson, Ingi Björn Albertsson og fleiri.

Þegar líða tók á kvöldið var farið að grynnka allverulega í vínskápum ráðuneytisins og höfðu sumir áhyggjur af því, ekki síst Steingrímur J. sem var mjög þyrstur þennan dag. Kom hann með þá hugmynd að heimsækja nafna sinn í Arnarnesið því þar hlyti að vera nóg af víni. Var hlaupinn mikill galsi í Steingrím eins og vera ber í slíku lokahófi.

Frakkinn Steingríms orðinn fyrirferðarmikill

Allir tóku vel í að fara í heimsókn á Arnarnesið og var brottförin undirbúin. Á hentugum tíma tóku menn sig til og mjökuðu sér út í ráðherrabílinn.

Steingrímur J. Sigfússon forseti Alþingis.

Gekk nokkuð greiðlega að koma mönnum fyrir — öllum nema Steingrími því að frakkinn hans var orðinn ákaflega fyrirferðarmikill. Þegar að var gáð leyndist uppstoppaður fálki undir honum sem Steingrímur hafði handsamað í umhverfisráðuneytinu til að færa nafna sínum Hermannssyni að gjöf.

Þetta líkaði ekki ráðherranum og var því snúið aftur inn í ráðuneytið og fálkanum komið á sinn stað. Steingrímur brosti út að eyrum. Gengið var að þeim dreggjum sem eftir voru áður en lagt var í hann á  ný.

Allt fór á sama veg; enn reyndist frakki Steingríms hafa bólgnað af verunni í ráðuneytinu. Kom í ljós að undir frakkanum var að þessu sinni hvítabjarnarstytta úr postulíni sem bæjarstjórn Bolungarvíkur hafði sent umhverfisráðuneytinu til þess að sefa reiði vegna ísbjarnar sem áhöfn á bát frá Bolungarvík hengdi við skipshlið nokkru áður.

Brá mönnum þó aðeins í brún því eingöngu virtist vera rauðvín á boðstólnum í hófinu.

Aftur var snúið inn í ráðuneytið, birninum skilað á sinn stað og gengið að eftirhreytunum. Til þess að sefa „gjafmildi“ Steingríms J. ákvað Össur að taka með í Arnarnesið stóru kortabókina sem Landmælingar Íslands höfðu gefið út og fært ráðuneytinu að gjöf. Þessa bók átti að gefa „nafna“.

Aðeins rauðvín á boðstólnum

Gekk nú allt að óskum og komst hersingin heilu og höldnu á áfangastað. Brá mönnum þó aðeins í brún því eingöngu virtist vera rauðvín á boðstólnum í hófinu.

Össur Skarphéðinsson, fv. alþingismaður og ráðherra.

Össur kvaddi sér fljótlega hljóðs og mærði Steingrím Hermannsson í snjallri ræðu og afhenti honum stóru kortabókina sem vinargjöf. Gestgjafinn þakkaði fyrir sig og kvað bókina koma sér vel því að hann væri slæmur í fótunum um þessar mundir og myndi því bara fletta henni í stað þess að fara í gönguferðir.

Afhendingu stóru kortabókarinnar var ekki fyrr lokið en Steingrímur J. kjagaði fram á stofugólfið, allhokinn í hnjám með bjórflöskur á gægjum í hverjum vasa og hvítan plastpoka um öxl. Enginn vissi hvað var í pokanum.

Hóf nú Steingrímur J. ræðu sína en erfitt reyndist að skilja hana utan það að hún fjallaði um „nafna “, óskabarn þjóðarinnar um alla eilífð.

Eftir nokkra stund beindi Steingrímur J. kröftum sínum að plastpokanum góða. Dró hann upp úr honum glerkassa á stærð við venjulegan skókassa en í glerkassanum var risastórt, forkunnarfagurt fiðrildi í öllum regnbogans litum sem hann hafði fundið í umhverfisráðuneytinu.

Össuri brá mjög í brún þegar hann sá fiðrildið, hrapaði á stól og hékk í slaufu sinni því að fiðrildið hafði hann fengið í fertugsafmælisgjöf frá tengdamóður sinni skömmu áður.

Fiðrildið hafði hún fengið frá Amazon í gegnum safnara í New York.

Jón Kristjánsson fv. ráðherra.

Steingrímur J. færði nafna sínum Hermannsssyni fiðrildið og „nafni“ gat ekki leynt gleði sinni, sagði að þetta væri frábær gjöf og kvaðst aldrei hafa séð svona flott fiðrildi.

Sagðist hann ætla að hafa það uppi á sjónvarpinu sínu og ef dagskráin væri mjög leiðinleg myndi hann bara horfa á fiðrildið og hugsa um vini sína.

Mannaval mætt í þessu geimi

Síðar um kvöldið fór að spyrjast út meðal gestanna hvernig gjöfin var til komin og orti Jón Kristjánsson þá:

Það er mikið mannaval
mætt í þessu geimi.
Í umhverfisráðuneyti Steingrímur stal
stærsta fiðrildi í heimi.

Næsta dag orti Halldór Blöndal:

Steingrímur heitir brjótur brands,
bar sér glas að munni
og fór að stíga fiðrildadans
með Framsóknarmaddömunni.


Flottasta gjöf frá fermingu!

Daginn eftir sat Steingrímur J. mjög lágt í sæti sínu í þingsalnum.

Við vorum að gantast með það að í hliðarherbergi að líklega væri hann að brjóta heilann um það hvernig hann gæti náð aftur fiðrildinu góða úr Arnarnesinu.

Halldór Blöndal, fv. ráðherra og forseti Alþingis.

Össur var líka allur á nálum, kunni ekki við að hringja í Steingrím Hermannsson en var hins vegar farinn að kanna möguleika á að fá nýtt fiðrildi frá New York.

Kom svo Steingrímur Hermannsson inn í þingsalinn, sá þann „gjafmilda“ hengslast í stól sínum og arkaði rakleitt til hans og heilsaði honum hressilega með handabandi um leið og hann sagði:

„Þetta var frábær gjöf, sú flottasta sem ég hef fengið frá fermingu!“

Steingrímur J. sagði fátt.

Daginn eftir hafði Steingrímur Hermannsson loksins fengið að heyra hvernig í pottinn var búið.

Hann hitti Össur niðri í þingi og sagði: 

„Össur, það er þarna fiðrildið …“

„Já, einmitt,“ svaraði Össur,

„fiðrildið …“ hélt Steingrímur áfram.

„Viltu nokkuð eiga það?“

„Nei, nei , alls ekki,“ svaraði Össur kófsveittur, „gjöf er gjöf.“

„Mikið er ég feginn,“ sagði Steingrímur þá. „Mér finnst það svo flott að ég ætla að setja það upp í sumarbústað.“

Og þar er fiðrildið enn þann dag í dag.

Villidýrafrumvarpið

Nokkrum dögum seinna var Steingrímur J. Sigfússon búinn að ná gleði sinni á ný.

Þá var til umræðu í þinginu frumvarp sem gekk undir nafninu „villidýrafrumvarpið“.

Ég var í ræðustól þegar Steingrímur J. kom inn í salinn og byrjaði að gjamma fram í eins og hann gerir stundum til að fá „fútt“ í umræðurnar.

Ég gerði þá hlé á ræðu minni og sagði undurrólega: „Gengur nú í salinn háttvirtur þingmaður, Steingrímur J. Sigfússon, öðru nafni Madame Butterfly.“

Salurinn sprakk en Steingrímur var snöggur út.