Tímamót eru að verða í verslun í miðborginni með því að Herrahúsið Adam hefur ákveðið að loka verslun sinni á Laugavegi 47 og flytja í Ármúla. Eigandinn hefur fengið nóg af götulokunum borgaryfirvalda, sem bitni mjög á hefðbundinni verslun.
Herrahúsið var stofnað 8. ágúst 1965. Herrahúsið rak fataverksmiðjuna Sportver sem saumaði hin frægu Kóróna föt sem og Adamsons föt, ásamt Lee Cooper gallabuxum. Á blómatíma Herrahússins og Sportvers unnu um það bil 100 manns hjá fyrirtækjunum. Fyrsta íslenska sjónvarpsauglýsingin sem var gerð og birtist á fyrsta degi íslensks sjónvarps var Kóróna jakkafataauglýsing og var Bessi heitinn Bjarnason, leikari, í aðalhlutverki.
Herrahúsið starfrækti þrjá verslanir í Reykjavík og voru þær í Aðalstræti 4, Bankastræti 7 (þar sem Sólón er) og Laugavegi 47, þar sem verslun fyrirtækisins hefur verið rekin um árabil á þremur hæðum.
Eigandinn hefur fengið nóg
.„Þessi borgarstjórn er að hrekja alla í burtu með götulokunum. Búðin mín hefur verið í miðbænum frá árinu 1965 en nú hef ég fengið nóg og hef ákveðið að flytjast annað,“ segir Sverrir Bergmann, eigandi verslunarinnar í samtali við Morgunblaðið í dag.
Hann segir að fjölmargar verslanir hafi þurft að flytjast á brott síðustu ár sökum stefnu borgaryfirvalda. Þá hafi væntanlegar götulokanir í miðbænum verið kornið sem fyllti mælinn.
„Það á að loka öllum götum við Snorrabraut á næsta ári skilst mér auk fleiri breytinga. Það er ekki hægt að una við þetta lengur,“ segir Sverrir og bætir við að borgaryfirvöld hatist við bíla og vilji að fólk sé annað hvort gangandi eða hjólandi.