Þetta átti að vera hinn fullkomni listaverkastuldur

Krossfestingin e. Brueghel.

Innbrotið virtist ganga fullkomlega samkvæmt áætlun. Þjófarnir brutu upp sýningarskápinn í ítalskri kirkju snemma morguns miðvikudaginn 13. mars sl.  og stungu af með 3 milljón evru málverk eftir 17. aldar flæmska listmálarann Pieter Brueghel yngri.

Sama kvöldið upplýsti lögreglan hins vegar að allt væri ekki sem sýndist: stolna myndin var eftirgerð.

Ekta málverkið, Krossfestingin, sem hafði verið gefið Santa Maria Maddalena-kirkjunni í smábænum Castelnuovo Magra í Liguriu á Norðvestur-Ítalíu fyrir meira en einni öld var í öruggri geymslu. Þar var henni komið fyrir nú í febrúar þegar ákveðið var að leika á þá sem reyndu að stela dýrgripnum.

Lögreglan hafði spurnir af því að þjófar hefðu augastað á meistaraverkinu sem var stolið árið 1981 en fannst nokkrum mánuðum síðar. Vegna þessarar vitneskju var sett upp eftirlitskerfi til að hafa hendur í hári þjófanna ef þeir létu til skarar skríða.

Daniele Montebello bæjarstjóri var í fámennum hópi þeirra sem vissu um gildruna og lék það hlutverk eftir þjófnaðinn að láta eins og stuldur málverksins væri „þungt högg fyrir bæjarfélagið“ í samtali við blaðamenn.

„Orðrómur var á kreiki um að einhver kynni að stela verkinu og þess vegna ákvað lögreglan að geyma það á öruggum stað, setja eftirgerð í staðinn og koma fyrir eftirlitsmyndavélum,“ sagði Montebello að kvöldi miðvikudagsins. „Ég færi lögreglunni þakkir en einnig kirkjugestunum sem tóku eftir að ekta myndin hékk ekki uppi en þögðu um það.“

Gífurleg verðmæti í kirkjunum

Auðug fjölskylda gaf kirkjunni málverkið. Í síðari heimsstyrjöldinni var það falið svo að þýskir hermenn stælu því ekki.

Pieter Brueghel yngri er sonur Pieters Bruegels eldri sem var talinn einn fremsti flæmski og hollenski listamaður endurreisnartímans. Brueghel yngri lifði mest á því að endurgera verk föður síns. Krossfestingin er olíuverk á eikarplötu.

Listaverkaþjófnaðir eru tíðir á Ítalíu en þeim fækkaði þó úr 906 árið 2011 í 449 árið 2016. Hvergi er betri markaður fyrir stolin listaverk en á Ítalíu enda má finna þar ógrynni af verðmætum verkum.

Um helmingur listaverkanna sem stolið var árið 2016 kom úr kirkjum. Ítalska listaverkalögreglan hefur sent frá sér leiðbeiningar um hvernig best sé að verja kirkjur sem ávallt eru opnar á daginn gegn þjófum. Mælt er með öryggiskerfum eftir því sem hentar á hverjum stað en best sé að hafa sjálfboðaliða við gæslu á staðnum.

Af vardberg.is, birt með leyfi.