Þingmaður Sjálfstæðisflokks vill standa utan við regluverk ESB um orkumál

Jón Gunnarsson.

EES-samningurinn er okkur Íslendingum ákaflega hagfelldur þrátt fyrir að við höfum orðið að gangast undir regluverk þar sem mörgum okkar finnst að stundum sé of langt seilst. Í einhverjum tilfellum skrifast það á okkar reikning því við stóðum ekki vaktina úti í Brussel þegar regluverkið var í smíðum, því það er á því stigi sem við höfum tækifæri til að koma athugasemdum okkar á framfæri og eftir því sem við á, að leggja til breytingar sem við viljum ná fram eða að sækja um undanþágur frá einhverjum þeim reglum sem til stendur að færa í lög.

Þetta skrifar Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fv. samgönguráðherra, í grein í Morgunblaðinu í dag. Hann segir sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda okkur Íslendingum hlutfallslega mikilvægari en öðrum þjóðum og þess vegna sé eðlilegt að umræður verði krefjandi.

„Þetta á við um orkupakkann. Íslendingar framleiða um það bil 50 MW-stundir af raforku á hvern landsmann á sama tíma og Norðmenn framleiða 15 MW-stundir. Þessar tvær þjóðir bera höfuð og herðar yfir aðrar þegar kemur að þessari framleiðslu. Það er því eðlilegt að margir hafi áhyggjur þegar þeir telja að innleiðing regluverks ESB geti haft takmarkandi áhrif á ákvarðanatöku okkar um skipulag þessara mála til lengri framtíðar og mögulega kallað fram hækkun á raforkuverði til heimila og almenns fyrirtækjarekstrar í landinu,“ segir Jón.

Hann bendir á að fyrsti og annar orkupakki ESB hafi þegar við leiddur inn í íslenska lögggjöf og þá hafi verið talið að það yrði raforkuframleiðslu hér og neytendum til hagsbóta.

Ekkert af þessu hefðum við ekki getað innleitt sjálf

„Ekkert af því sem þar var gert hefðum við ekki getað innleitt sjálf, eins og til að mynda að skapa grundvöll fyrir opinn markað og samkeppni í framleiðslu og sölu á rafmagni. Það höfum við gert í sjávarútvegi með því að hafa markað fyrir veiðileyfi og frjálsa sölu á sjávarafurðum. Við þurftum ekki ESB til að segja okkur fyrir verkum í þeim efnum og árangur okkar er stórkostlegur borið saman við árangur annarra þjóða. Í dag snýst deilan um viðbótar skattlagningu á greinina sem margir telja að svigrúm sé fyrir, á meðan aðrar þjóðir deila um hve mikið þær eigi að styrkja sinn sjávarútveg.“

Jón segir að eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegt að við þróuðum okkar eigið regluverk til að gæta hagsmuna landsmanna og fyrirtækja í landinu. Tryggja eðlilegan markað og samkeppni sem hefði skilað hagkvæmum rekstri og bætt hag neytenda.

„Ég get ekki séð að það skipti samstarfsþjóðir okkar nokkru máli þó að við stæðum utan regluverksins um orkumál. Þrátt fyrir að vera hlutfallslega stórir framleiðendur er markaðurinn hér örmarkaður í stóra samhenginu, markaður sem skiptir ekki aðra en okkur máli m.a. annars vegna þess hversu langt við erum frá markaði ESB og við erum ekki að tengjast þeim markaði á næstu árum, hvað sem síðar verður. Grundvallarspurning okkar er því eðlileg og henni velti ég upp á fundi með samstarfsþjóðum okkar í vikunni; á Ísland á þessari stundu eitthvert erindi í samstarf um orkumál við nágrannaþjóðirnar? Er þörf á því að efna hér á landi til deilna um viðkvæmt mál þegar afleiðingarnar eru eins óljósar og raun ber vitni og þá ekki síst með tilliti til þess að nú þegar er verið að undirbúa 4. orkupakkann?

Ef við síðar tökum þá ákvörðun að tengja Ísland með raforkusæstreng til Evrópu er auðvitað allt önnur staða uppi og eðlilegt að þá þurfi að samræma reglur hér þeim reglum sem gilda á því markaðssvæði.

Mín tillaga er því einföld: Setjumst niður með viðsemjendum okkar og förum yfir málin á þessum grunni. Ég sé ekki að þær þjóðir hafi, eins og sakir standa, sérstaka hagsmuni af því að við innleiðum reglur ESB um orkumál. Fyrir Norðmenn er málið mikilvægt, því þeir eiga í miklum og að þeirra mati ábatasömum viðskiptum við Evrópulönd vegna sölu á raforku. Í mínum huga er þetta einfalt mál en það má vel vera að niðurstaðan verði flóknari en virðist við fyrstu sýn, það kemur þá í ljós þegar á reynir,“ segir Jón Gunnarsson.