Í ljós hefur komið að Þjóðverjar borga Dönum fyrir að slökkva á vindmyllum á Jótlandi við bestu aðstæður til raforkuframleiðslu.
TV MIDWEST rannsakaði málið, eftir að tveir Danir undruðust hversvegna slökkt er á nokkrum vindmyllugörðum á Mið- og Vestur Jótlandi í góðum strekkingsvindi – kjöraðstæðum fyrir græna raforkuframleiðslu.
Ástæðan ku vera sú, að danskar vindmyllur framleiða mikið af umframorku þegar vindurinn blæs, sem ekki er hægt að geyma. Flutningskerfi raforku ofhitna, ef umframorkan fer ekki strax í notkun. Flutningskerfi raforku í Þýskalandi ráða ekki við að flytja orkuna suður á bóginn, t.d. til iðnaðarsvæða í Suður-Þýskalandi, þar sem hennar væri þörf.
Þegar vestanvindurinn blæs í Danmörku, blæs hann að sama skapi hraustlega á vindmyllurnar í Norður-Þýskalandi. En Þjóðverjar mega ekki, lögum samkvæmt, slökkva á sínum vindmyllum. Geri þeir það, verða þeir sektaðir – og það er ódýrara að borga Dönum fyrir að slökkva á vindmyllunum uppi á Jótlandi – til að koma í veg fyrir ofhitnun flutningskerfanna vegna svæðisbundinnar offramleiðslu á raforku.
Engin leið til að geyma eða flytja raforkuna eins og er
Mikið hefur verið rætt um fljótandi raforkumarkað í Evrópu. Orkan átti einfaldlega streyma af þeim svæðum þar sem eftirspurn er mett, þangað sem hennar er þörf, og að jafnvægi átti að skapast þannig. En í framkvæmd virðist þetta ekki ætla að ganga upp, nema stórkostlegum fjárhæðum verði varið í endurnýjun flutningskerfa raforku, og leiða til að geyma eða nýta umframorku á annan hátt.
Danir fengu þannig 190 milljón danskar krónur í greiðslur frá Þýskalandi í fyrra, fyrir að slökkva á vindmyllum á Jótlandi. Fyrirhugað er að reisa amk. þrjá nýja vindmyllugarða úti fyrir ströndum Jótlands fyrir árið 2030.
Yfirmaður rannsókna og tæknimála hjá Dönsku orkuveitunni, Jørgen Christensen, sagði ástandið óviðunandi, og vill að beðið verði með að reisa fleiri vindmyllur þangað til að fundin verður leið til að geyma og/eða nýta alla umframorkuna.