Þögn Samfylkingarinnar er vandræðaleg en hræsnin beinlínis yfirgengileg

Björn Þorfinnsson er fréttastjóri DV og einnig einn af bestu skákmönnum þjóðarinnar.

Björn Þorfinnsson, skákmeistari og fréttastjóri DV, gagnrýnir Samfylkinguna harðlega í leiðara DV sem kom út í dag og sakar flokkinn um þöggun þegar kemur að vandræðum flokksmanna og tvöfalt siðferði þegar kemur að málefnum stjórnmálamanna annarra flokka.

Bendir fréttastjórinn á fréttaflutning af málum Ágústs Ólafs Ólafssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, sem áminntur hefur verið af siðanefnd flokksins fyrir óviðeigandi framkomu, og Helga Hjörvar, fv. þingmanns flokksins, sem nokkrar konur kvörtuðu yfir við forystu flokksins fyrir ríflega tveimur árum.

„Þegar DV og Stundin kepptust við að birta fréttir upp úr Klaustursupptökunum þá var lítill skortur á fordæmingu Samfylkingarfólks. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vandaði sexmenningunum ekki kveðjurnar. Þá lýsti hann því yfir að hann treysti sér ekki til þess að senda fundarboð á Sigmund Davíð Gunnlaugsson vegna fundar formanna stjórnarandstöðuflokka sem fram fór í síðustu viku. Vandlæting Loga var algjör. Flokkssystir hans, Helga Vala Helgadóttir, tók sama pól í hæðina. Þegar Sigmundur Davíð fór í ræðupúlt Alþingis og þingkonan Þórunn Egilsdóttir gekk út úr fundarsal Alþingis þá eygði Helga Vala tækifæri til þess að komast í fjölmiðla og rauk einnig á dyr.

Þögn þessa sama fólks í tengslum við mál Ágústs Ólafs og Helga er nánast ærandi. Logi hefur neitað að tjá sig um hvort Ágúst eigi afturkvæmt á Alþingi og hefur nálgast málið líkt og jólaköttur í kringum heitan möndlugraut. DV hefur ítrekað reynt að ná tali af Loga síðustu daga vegna málsins og hefur blaðið fengið þau skilaboð að formaðurinn hafi sagt allt sem hann vill segja um málið. Sömu sögu er að segja af Oddnýju Harðardóttur, fyrrverandi formanni Samfylkingar, sem hefur ekki svarað DV vegna málsins.

Það skal enginn halda öðru fram að en að allir þingmenn Samfylkingarinnar hafi vitað af málum Helga sem og máli Ágústs. Þögnin er vandræðaleg en hræsnin beinlínis yfirgengileg,“ segir í leiðara DV í dag.