Þórðargleði fólks yfir þessum upptökum komin út fyrir öll siðferðismörk

„Í fyrsta lagi þá finnst mér ömurlegt að þurfa að verða vitni af samtölum þessara mannaá KlausturBar í liðinni fréttaviku. Mitt mat er að ég geri einfaldlega meiri kröfur til kjörinna fulltrúa en að þeir sýni það dómgreindarleysi að sitja á veitingastað að ræða mál sem þessi, þá skal ósagt látið hvað mér finnst um orðfærið.

Í öðru lagi, þá þekki ég það af eigin skinni að fylgst sé með mér á opinberum vettvangi. Ég er því algerlega meðvitaður um að framkoma skiptir máli. Samt hef ég margoft móðgað og sagt óviðeigandi brandara sem hafa komið í bakið á mér og ég þurft að biðjast afsökunar á síðar. Nú er ég á engan hátt að bera það saman við þessar samræður sem við sem þjóð neyddumst til að hlusta á í fréttum síðustu daga. En myndi sú framkoma mín þola upptöku og opinbera birtingu? Nei. Gæti ég horft framan í börnin mín og látið eins og ekkert sé? Nei.

Má ég eiga von á því að næst þegar ég segi eitthvað dónalegt (sem gerist mjög oft) eða segi eitthvað sem er óviðeigandi, að þá sé í lagi að taka það upp og birta í fjölmiðlum?

Ekki skepnur inn við beinið

Í þriðja lagi, er einhver hér sem telur að þessir einstaklingar sem höguðu sér eins og vitlausir unglingar með minnimáttarkennd og töluðu eins og gúmmítöffarar sem aldrei var boðið upp á skólaböllum, séu raunverulegar skepnur inn við beinið? Ætlum við öll í alvöru að halda því fram að við höfum ekki verið á ættarmóti þar sem svona álíka tal hefur farið fram í fortjaldi eftir fimmtu rauðvínsbeljuna frá Palla frænda?

Nú gef ég mér að all flestir kannist við það (nema þeir sem hafa aldrei verið í fortjaldapartýi). Enn það réttlætir ekki að þingmenn komi svona fram á opinberum vettvangi, við erum öll sammála um það. Þetta er ekki boðlegt og ekki samboðið kjósendum.

Í fjórða lagi, þá finnst mér Þórðargleði fólks yfir þessum óboðlegu upptökum vera komin út fyrir öll siðferðismörk mín á hinum endanum. Það er eitt að krefjast faglegrar afsagnar að menn víkji til hliðar eða það sem mestu máli skiptir að kjósendur muni þetta þá í næstu kosningum ef að menn stíga ekki til hliðar. En það að lesa þessar upptökur upp í tímaröð undir fána lýðræðis og einhverskonar hlutverki Borgarleikhússins er eins og að horfa á fórnarlamb eineltis standa upp eftir baramíðar og sparka ítrekað í andlit gerandans. Það er ekkert í mínu siðferði sem einfaldlega réttlætir þetta.“

Þetta segir fjölmiðla- og athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson, betur þekktur sem Simmi Vill, í langri færslu sem hann birti í gærkvöldi á fésbókarsíðu sinni þegar fregnir bárust af uppfærslu Borgarleikhússins á upplestri af tali sex þingmanna á Klausturbar á dögunum.

Mistök Borgarleikhússins

Sigmar segir málið allt harmleik, hann telur að það eigi að vinna faglega á þar til gerðum stöðum en Borgarleikhúsið hafi gert mistök með sínum þætti.

„Þeir stjórnmálamenn sem munu nýta sér þetta með því að klína andlitum sínum á sjónvarpsskjái í von um að verða andlitsmynd hreinleikans frá og með deginum í dag fá vonandi bágt fyrir, enda er þetta mál sem á að vera fordæmisgefandi um framtíðar framkomu þingmanna, ekki tækifærispot annara,“ segir Sigmar ennfremur.