Þýskaland gæti orðið að tvöfalda fjárframlög eftir BREXIT

Emmanuel Macron, Frakklandsforseti og Angela Merkel, kanslari Þýskalands.

Þýskaland gæti þurft að tvöfalda framlag sitt til næstu fjárlaga Evrópusambandsins (ESB) á meðan Brussel baslar við að fylla í skarðið fyrir milljarða breskra punda gat á fjárlögunum eftir BREXIT. Frá þessu segir breska blaðið Express í dag.

Fjárhæðin Þýskaland gæti orðið að greiða til sambandsins gæti numið allt að 28,5 milljarðum punda skv. áætlunum. Þessar fréttir hafa valdið uppnámi hjá þýskum stjórnvöldum og fjórum öðrum ríkjum sem bera hitann og þungann af rekstri ESB. Þýskaland gæti þurft að þola 100% hækkun, frá 13 milljörðum punda árið 2020 upp í 28,5 milljarða árið 2027, á meðan t.d. Holland verður fyrir aðeins 50% hækkun.

Þýskaland greiðir nú þegar mest af öllum ESB ríkjunum, en Bretland hefur verið í öðru sæti. Fjármálaráðuneyti Þýskaland hefur kvartað yfir því að byrðar Þýskalands muni vaxa úr takti við það sem önnur ríki þurfa að borga.

Átakalínur að myndast við fjárlagagerð næstu ára

Embættismenn vilja hækka fjárlög þess upp í 1,11% af heildarþjóðarframleiðslu sambandsins til að staga í gatið sem Bretland muni skilja eftir sig á fjárlögum sambandsins, en vinna við fjárlög áranna 2021 til 2027 er nú þegar hafin.

Búist er við andstöðu ríkjanna Þýskalands, Hollands, Austurríkis, Danmerkur og Svíþjóðar við tillögunni, en þessi ríki leggja meira til en þau fá út úr ESB samstarfinu. Einnig er búist við því að Þýskaland og Frakkland muni fara í hár saman vegna deilna um endurgreiðslur.

Reyndari embættismenn sambandsins hafa varað við því að engin áætlun sé til staðar til að staga í tíu milljarða punda gat sem Bretland mun skilja eftir sig á fjárlögum ESB.