Til hvers erum við með ráðherra ef þeir koma ekki að því að bjarga Wow air?

Stefán Guðmundsson forstjóri Gentle Giants á Húsavík.

„Ég velti fyrir mér stöðunni. Það heyrist ekki múkk frá ráðherrum; hvorki ferðamálaráðherranum, fjármálaráðherranum, samgönguráðherranum eða forsætisráðherranum í þessari stöðu sem WOW er komið í. Hvernig má það vera? Átta menn sig engan veginn á því af hvaða stærðargráðu þetta dæmi er og hverslags dóminóáhrif það kann að hafa á þjóðarbúið ef WOW fellur?“

Þetta segir Stefán Guðmundsson forstjóri og aðaleigandi ferðaþjónustufyrirtækisins Gentle Giants á Húsavík, sem stendur fyrir umsvifamikilli hvalaskoðun þar og taka á móti þúsundum ferðamanna ár hvert og sigla með þá út á Skjálfandaflóa.

Stefán bendir á í samtali við Viljann, að Íslendingar séu vanir því að þingmenn og ráðherrar ríkisstjórnarinnar stökkvi upp til handa og fóta ef fyrirtæki í hefðbundnum atvinnugreinum lenda í vandræðum. Þekktar séu björgunaraðgerðir gagnvart fjármálafyrirtækjum, sjávarútvegsfyrirtækum og þeim sem starfi til að mynda í landbúnaði, en þegar um sé að ræða risavaxið flugfélag sem skipti ferðaþjónustuna gífurlega miklu máli gildi bara þögnin ein.

„Þeir sem hafa mestu ákvarðanatökufælnina af þessu fólki munu segja að þetta sé ekki á forræði ríkisstjórnarinnar. En þá má spyrja um sambærileg dæmi í öðrum atvinnugreinum. Nýverið runnu starfsleyfi laxeldisfyrirtækja á Vestfjörðum út og voðinn blasti við. Ráðherrar hlupu upp til handa og fóta og redduðu því sem þurfti. Strax. Þannig á að bregðast við hjá alvöru fólki sem er ekki orðið samdauna embættismannakerfinu.“

Hann bendir á að 1.400 manns vinni hjá Wow og fall félagsins geti haft keðjuverkandi áhrif á lífeyrissjóðina, verkalýðsfélögin, þjónustufyrirtæki sem sinni flugiðnaðinum og ferðaþjónustuna almennt.

„Til hvers erum við með ráðherra; ef ekki til þess að koma að borðinu undir svona kringumstæðum?“ spyr Stefán Guðmundsson.