„Það er ekki endilega hagur Icelandair að það verði stórt gjaldþrot hér á markaði, en þeir voru væntanlega ekki tilbúnir að greiða mikið fyrir félag í miklum rekstrarvanda,“ segir Jón Karl Ólafsson fv. forstjóri Icelandair í samtali við Viljann.
Hann segir Wow air alls ekki komið fyrir vind, þrátt fyrir yfirlýsinguna um fjárfestingu Indigo Partners.
„Þetta er viljayfirlýsing. Í raun ekki annað en yfirlýsing um kaup að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Meðal annars um áreiðanleikakönnun sem alltaf getur leitt til annarrar niðurstöðu, eins og dæmin sanna.“
Jón Karl telur að forráðamenn Icelandair hafi samþykkt kaupin á Wow á sínum tíma vegna einhvers þrýstings frá yfirvöldum og hugsanlega einhverjum fjármálastofnunum. Jafnframt sé ljóst að Skúli Mogensen, forstjóri Wow, hafi á sama tíma verið að ræða við fleiri aðila, því samningurinn við Indigo Partners beri þess merki að hann sé ekki skrifaður á einni nóttu, hann eigi sér lengri aðdraganda.
Samkeppnisstaða beggja íslensku flugfélaganna erfið
„Menn verða að átta sig á því að innbyrðis samkeppni Wow og Icelandair er ekki stóra vandamálið hjá þeim, heldur vaxandi samkeppni alls staðar frá á Norður-Atlantshafinu,“ segir Jón Karl. Hann telur að væntanlegar kröfur Indigo um hagræðingu eigi eftir að vekja mikla athygli hér á landi og muni eflaust ekki falla í kramið hjá öllum í verkalýðshreyfingunni.
„Samkeppnisstaða beggja íslensku flugfélaganna er erfið og það þarf ýmsu að breyta hjá báðum,“ segir Jón Karl og bendir á að viljayfirlýsing Wow við Indigo sé stórfrétt, því það hafi hingað til ekki verið auðvelt að selja mönnum þá hugmynd að fjárfesta í íslenskum flugfélögum.
Ef af verður, er líklega verið að tala um eina stærstu fjárfestingu erlends aðila í íslensku ferðaþjónustufyrirtæki til þessa, segir Jón Karl en hann var á árum áður formaður Viðskiptaráðs Íslands.