Tilnefningu Birgittu Jónsdóttur, f.v. alþingismanns til setu í trúnaðarráði Pírata var hafnað í atkvæðagreiðslu á félagsfundi og í kosningakerfi Pírata í kvöld. Af 68 greiddum atkvæðum sögðu 55 nei en 13 já.
Samkvæmt heimildum Viljans studdi enginn viðstaddur úr þingflokki Pírata Birgittu, en þau voru Helgi Hrafn Gunnarsson, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Halldóra Mogensen og Oktavía Hrund Jónsdóttir. Eiga einhverjir að hafa borið fyrri samstarfsörðugleikum við. Var fundinum og niðurstöðunni lýst sem „brútal“, og er Birgitta sögð hafa yfirgefið fundinn grátandi.
Birgitta lét hafa eftir sér, rétt í þessu í lokuðum hópi Pírata:
„Ég vil þakka þeim sem veittu mér traust á þessum fundi áðan. Ég ætla að skrá mig úr þessum hóp til að vera ekki fyrir þeim sem vilja mig ekki í Flokkinn. Kær kveðja Grýla“