Þáttaskil í viðræðum Bretlands og Evrópsambandsins voru í brennidepli á fundi EES-ráðsins sem fram fór í Brussel í gær. Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á mikilvægi EES-samningsins fyrir Ísland og íslenskt atvinnulíf. Í því samhengi taldi ráðherra mikilvægt að beina athygli að efnahagslegri þýðingu samningsins á 25 ára afmæli hans á næsta ári.
EES-ráðið kom saman til reglulegs fundar í Brussel en það er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnarinnar og ráðherraráðs ESB. Yfirvofandi útganga Bretlands úr ESB og nýgert samkomulag þeirra á milli var efst á baugi á fundinum og gerði aðalsamningamaður ESB, Michel Barnier, grein fyrir stöðu málsins.
„Samningarnir sem náðust í síðustu viku marka tímamót í Brexit-viðræðunum. Á fundinum í dag vorum við EFTA-ráðherrarnir í EES sammála um að það væri fagnaðarefni að samist hefði um útgönguskilmála. Við fylgjumst áfram grannt með framvindu mála enda bíður samkomulagið staðfestingar,“ sagðir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra að fundi loknum.
Vinna langt komin við samning milli EES og Bretlands
Ýmis atriði í útgöngusamningi Bretlands og ESB varða Ísland og hin EFTA-ríkin innan EES vegna aðildar þeirra að innri markaðnum. Vinna við samning milli Bretlands og EES/EFTA-ríkjanna er langt komin og leyst verður úr málum með sambærilegum hætti og í samningi Bretlands og ESB, til dæmis varðandi réttindi borgara til dvalar og búsetu. Á fundinum í Brussel var lögð áhersla á áframhaldandi náin samskipti EFTA-ríkjanna innan EES og Evrópusambandsins þegar kemur að framtíðarviðræðum við Bretland, jafnvel þótt af útgöngu yrði án samnings, að því er fram kemur í frétt frá utanríkisráðuneytinu.
Auk Brexit tók ráðherra upp málefni þriðju orkupakkans þar sem hann lagði áherslu á að hagsmunir Íslands í orkumálum yrðu áfram tryggðir. Ennfremur vék hann að mikilvægi þess fyrir íslenska þjóð að standa vörð um heilbrigði manna og dýra við innflutning matvæla til Íslands. Ráðherra áréttaði þýðingu tveggja stoða kerfisins sem EES-samningurinn byggist meðal annars á. „Sveigjanleikinn sem felst í samningnum er ein af ástæðum þess hversu vel hann hefur reynst. Það er bæði áskorun og mikilvægt að standa vörð um tveggja stoða kerfið.“
Utanríkisráðherra ræddi einnig hvernig Ísland hefur sótt í sig veðrið við framkvæmd EES-samningsins, bæði innanlands sem og við hagsmunagæslu í Brussel. „Sú vinna hefur þegar skilað árangri sem sést meðal annars í bættri stöðu í frammistöðumati Eftirlitsstofnunar EFTA. Hraðinn við innleiðinguna segir þó ekki alla söguna heldur skiptir fagmennska og framfylgd þeirrar innleiðingar ekki minna máli til að tryggja samræmi á innri markaðnum,“ segir Guðlaugur Þór.
Síðdegis sótti utanríkisráðherra fundi með þingmannanefnd og ráðgjafarnefnd EFTA.