Tók upp samtal við formann skilanefndar Glitnis og hótaði kæru til FME

Afhjúpun Stundarinnar um helgina, þess efnis að Róbert Wessman, forstjóri lyfjafyrirtækisins Alvogen, hafi fengið ríflega 96% skulda sinna afskrifaðar í samningum við Glitni og persónulegar ábyrgðir hans og Árna Harðarsonar, aðstoðarforstjóra Alvogen, hafi verið felldar niður, hefur vakið mikla athygli, enda er um að ræða einhverjar mestu afskriftir Íslandssögunnar.

Umboðsmaður skuldara hefur bent á að almenningi hafi aldrei staðið til boða viðlíka skuldauppgjör og afskriftir. Þá hefur varaforseti ASÍ bent á að hægt væri að hækka laun alls launafólks í landinu á almennum vinnumarkaði um 3,4% með þeim fjármunum sem Róbert fékk afskrifaða í samningnum við Glitni.

Í grein Stundarinnar kemur fram að til þess að losna við ábyrgðirnar og til að gera upp skuldir, sem um mitt ár 2009 námu samtals um 45 milljörðum króna, greiddi Róbert tæplega 1.300 milljónir króna til  Glitnis í reiðufé.

Róbert var meðal annars í 98 prósenta sjálfskuldarábyrgð fyrir 5,3 milljarða króna láni sem Glitnir veitti félagi hans, Salt Financials, til að kaupa hlutabréf í Glitni þann 18. september árið 2008, nokkrum dögum fyrir yfirtöku íslenska ríkisins á bankanum.

Persónulegar ábyrgðir felldar niður

Í samningnum sem gerður var vegna málsins, eru skuldir og persónulegar ábyrgðir eins nánasta samstarfsmanns Róberts Wessmann, skattalögfræðingsins Árna Harðarsonar, einnig undir en hann var meðal annars í sjálfskuldarábyrgðum fyrir tveimur prósentum af 5,3 milljarða króna skuld við Glitni út af hlutabréfakaupum í bankanum í september árið 2008.

Endurgreiðslur Róberts í skuldauppgjöri félaga hans og Árna Harðarsonar við Glitni námu því samtals rúmlega þremur prósentum, nánar tiltekið 3,25 prósentum, miðað við skuldastöðu félaga Róberts við Glitni um ári eftir bankahrunið árið 2009.

Steinunn Guðbjartsdóttir, fv. formaður slitastjórnar Glitnis.

Róbert greiddi rúmlega 3 prósent, tæplega 1.300 milljónir króna, af rúmlega 40 milljarða króna skuldum sem voru útistandandi við bankann árið 2009; skuldum sem hann var að stóru leyti í persónulegum ábyrgðum fyrir.

Eftirstöðvarnar af kröfum Glitnis á hendur félögum Róberts og honum sjálfum voru felldar niður.

Hvað réði því að ákveðið var að afskrifa?

Umrætt skuldauppgjör, sem fram fór í apríl 2014, hefur aldrei verið rætt opinberlega fyrr en nú. Róbert kom beinlínis fram í fjölmiðlum á þessum árum og fullyrti að ekki króna hefði verið afskrifuð.

Eðli málsins samkvæmt hafa því margir velt því fyrir sér undanfarna daga, hvers vegna Glitnir fór þessa leið í ljósi þess að Róbert er nú einn ríkasti maður landsins — aðeins örfáum árum eftir að hafa lýst sig eignalausan með skriflegum hætti í skuldauppgjörinu.

Og hafnað alfarið tillögum skilanefndar Glitnis um skiptingu mögulegs ágóða af uppbyggingu Alvogen til framtíðar og komist upp með það af einhverjum ástæðum.

Róbert Wessman, forstjóri Alvogen.

Skuldauppgjörið fyrir aðeins ríflega fjórum og hálfu ári, virðist raunar hafa verið svo hagfellt fyrir Róbert Wessman að starfsmenn skilanefndarinnar hafa samkvæmt áreiðanlegum heimildum haft af því miklar áhyggjur æ síðan að ekki hafi verið byggt á réttum upplýsingum.

Eignastaða Róberts hafi ekki verið jafn slæm og af var látið og forsendurnar fyrir niðurstöðunni því ekki réttar.

Blekkingar og hótanir

Ingi Freyr Vilhjálmsson, blaðamaður Stundarinnar, veltir því upp í grein sinni hvort hér hafi ráðið kalt hagsmunamat bankans. En Viljinn hefur fyrir því heimildir innan úr Glitni að málið sé ekki svo einfalt, hefur hafi mögulega aðrir hvatar og hreinlega blekkingar ráðið úrslitum.

Meðal annars hefur Viljinn undir höndum upplýsingar og minnisblöð innan úr Glitni, sem benda til þess að þáverandi formaður skilanefndarinnar hafi verið beittur óeðlilegum þrýstingi til að þvinga fram niðurstöðu í málinu.

Formaður skilanefndar Glitnis á árunum eftir hrun var Árni Tómasson, löggiltur endurskoðandi. Árni hafði áður verið náinn samstarfsmaður Árna Harðarsonar hjá Endurskoðunarfyrirækinu Deloitte.

Árni Tómasson, fv. formaður skilanefndar Glitnis.

Árni er föðurbróðir Páls Eiríkssonar (Tómassonar hæstaréttardómara) sem átti sæti í slitastjórn Glitnis ásamt Steinunni Guðbjartsdóttur lögfræðingi, sem var formaður stjórnar.

Tók upp símtal og hótaði því að kæra

Róbert Wessman deildi harkalega á Árna í störfum sínum fyrir skilanefndina, sagði hann ganga erinda Deutsche Bank á sinn kostnað. Róbert og Árni tókust harkalega á um þetta í símtali, sem Róbert hljóðritaði án vitneskju skilanefndarformannsins og hótaði því svo að kæra hann á grundvelli upptökunnar til Fjármálaeftirlitsins (FME) og Sérstaks saksóknara fyrir meinsæri.

Ólöglegt er að hljóðrita samtöl án þess að tilkynnt sé um slíkt fyrirfram.

Jafnframt er Róbert sagður hafa hótað skilanefndum allra föllnu viðskiptabankanna þriggja, því að leka viðkvæmum upplýsingum um rannsókn bandaríska lyfjaeftirlitsins á Actavis, en slíkt hefði getað valdið bönkunum miklu fjártjóni.

Í minnisblaði sem lagt hefur verið fyrir slitastjórn Glitnis, var fjallað um þessi mál og þar kemur fram að auk orðróms þess efnis að Róbert Wessman hafi leynt eignum í skuldauppgjörinu með því að færa raunverulegt eignarhald hans á Alvogen yfir til Árna Harðarsonar, sé því haldið fram að hann hafi einnig beitt óeðlilegum þrýstingi gagnvart einstaklingum innan bankans til að knýja fram afskriftir. 

Viðkvæmar upplýsingar um lyfjaverksmiðju Actavis

Róbert hafi, sem fyrrverandi forstjóri með mikilsverðar trúnaðarupplýsingar, hótað því að dreifa neikvæðum upplýsingum um bandaríska lyfjaverksmiðju sem tengdust rannsókn bandaríska lyfjaeftirlitsins á Actavis, sem hefði haft í för með sér mikið fjárhagslegt tjón fyrir íslenska banka, sem hluthafa og lánadrottna, þegar fjárhagsleg endurskipulagning á Actavis stóð sem hæst.

Í stuttu máli er á gögnum málsins að skilja, að Róbert Wessman hafi komið því rækilega til skila í aðdraganda skuldauppgjörsins, að ef hann ætti að fara niður myndi hann taka alla aðra með sér sömu leið.

Það virðist hafa borið tilætlaðan árangur.