Trump: „Bandaríkjamenn vilja frið með öllum sem vilja frið“

Donald J. Trump, Bandaríkjaforseti, ávarpaði blaðamenn í Hvíta húsinu.

„Svo lengi sem ég er forseti Bandaríkjanna, mun ég aldrei leyfa Íran að eignast kjarnorkuvopn,“ sagði Donald J. Trump, forseti Bandaríkjanna, í yfirlýsingu á blaðamannafundi í Hvíta húsinu rétt í þessu, og sagði „Íran virðist hafa hörfað“.

Ekki er auðvelt að lesa út úr skilaboðunum, en svo virðist sem forsetinn sé tilbúinn til að halda friðinn við Íran, ef samkomulag og samvinna næst. Hann undirstrikaði hernaðarmátt Bandaríkjanna, en virtist ekki alvara með stríð, frekar viðskiptabönn og áherslu á að stöðva þróun kjarnavopna í Íran.

Enginn fórst í eldflaugaárásunum í nótt

„Ekkert mannfall varð í árásinni í nótt, allir bandarískir hermenn eru öruggir og aðeins smávægilegar skemmdir urðu á búnaði“, sagði hann um eldflaugaárás Írans á bandarísk skotmörk í Írak í gærkvöldi, og þakkaði eldflaugaeftirlitskerfinu fyrir að fólk náði að forða sér.

Hann sagði þó að Bandaríkin myndu ekki líða hryðjuverk.

„Við drápum hættulegasta hryðjuverkamann í heimi [Souleimani], sem var ábyrgur fyrir gjörðum og þjálfun hryðjuverkamanna um allan heim,“ sagði Trump og kvað hann einnig ábyrgan fyrir örkumli og láti þúsunda Bandaríkjamanna og fleira fólks.

„Það hefði átt að losa heiminn við hann fyrir löngu síðan.“

Trump kvað verða lögð viðskiptabönn á Íran þar til stjórn landsins breytir um hegðun. Hann sagði hana hafa fengið kjarnorkusamning og gríðarlegar fjárhæðir frá fyrrum Bandaríkjastjórn, sem hún notaði til að fjármagna hryðjuverk í löndunum í kring. „Eldflaugarnar sem var skotið í gær voru keyptar fyrir það fé.“

„Þakklæti þeirra var að kalla dauða yfir Bandaríkin, meira að segja daginn sem samingurinn var undirritaður.“

Hann sakaði Íransstjórnina um að hafa myrt 1.500 manns í mótmælum í Íran.

Leggur áherslu á að nýir samningar verði gerðir við Íran

„Tími er kominn fyrir lönd heimsins að slíta kjarnorkusamningnum við Íran og gera nýjan samning,“ sagði Trump einnig, og varaði við því að Íranir væri komnir mjög langt með að þróa kjarnorkuvopn. Það mætti ekki líðast á meðan landið stundaði hryðjuverk og fjandsamlega hegðun.

Hann lagði þó áherslu á að Íran væri gott land með gríðarlega möguleika, sem mætti virkja með friði og góðum samningum. Hann biðlaði til NATO um að taka þátt við að leysa málin með Bandaríkjunum.

Trump sagði að gríðarlega mikilvægum áfanga hefði verið náð með sjálfstæði Bandaríkjanna í orkumálum, vegna framleiðslu á olíu og jarðgasi. Nú þyrftu Bandaríkin ekki lengur að kaupa olíu frá Miðausturlöndum.

Hann kvað herinn hafa verið endurreistan, og að nú ættu Bandaríkin „Besta her og vopnabúr í heimi. Við viljum samt ekki þurfa að nota það.“

Hann kvaðst opinn fyrir samvinnu við Íran við að halda sameiginlegum óvini landanna, Íslamska ríkinu, í skefjum.

„Bandaríkjamenn vilja frið með öllum sem vilja frið.“