Trump: Mannréttindin koma frá almættinu, ekki ríkisvaldinu

Donald J. Trump er með teymi virtra sérfræðinga í loftslagsmálum.

„Í þessum töluðu orðum eru gyðingar, kristnir, múslimar, búddistar, hindúar, sikhar, yasídar og margir aðrir trúaðir, fangelsaðir, ofsóttir, pyntaðir og jafnvel myrtir, oft af eigin stjórnvöldum, fyrir það eitt að iðka trú sína. Það er erfitt að horfast í augu við það. Í dag munu Bandaríkin kalla eftir því afdráttarlaust, að ofsóknum á grundvelli trúar verði hætt,“ sagði Donald Trump, forseti Bandaríkjanna á þingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) um trúfrelsi í gær. Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, kallaði eftir því að hryðjuverkamenn ISIS, auk þess að lönd eins og Íran, Kína, Nígaragúa og Venesúela láti af ofsóknum sínum gagnvart trúuðum þegar í stað og sagði að trúfrelsi ætti nú undir högg að sækja í heiminum.

Bandaríkjaforseti ákallaði þjóðarleiðtoga í ræðu sinni: „Sleppið samviskuföngum, afnemið lög sem takmarka trúfrelsi, verndið minni máttar, varnarlausa og kúgaða. Bandaríkin standa með trúuðum hvar sem er í heiminum. Við óskum einungis eftir frelsi fyrir fólk til að lifa eftir trú sinni og sannfæringu. Þetta málefni er eitt af mínum helstu forgangsverkefnum í embætti.“

Minntist trúaðra sem létust í árásum

Trump minntist kaþólska prestsins sem var myrtur í Normandí í Frakklandi árið 2016, múslimanna sem voru myrtir í mosku í Christchurch á Nýja-Sjálandi, gyðinga sem létust í árásum á sýnagógur í Pennsylvaníu og Kaliforníu í Bandaríkjunum og kristinna sem létust í árásunum á kirkjur á Sri Lanka á Páskadag, á þessu ári. „Árásirnar skilja eftir gapandi sár á samfélagi okkar mannanna. Við verðum að taka höndum saman og vernda fólk af öllum trúarbrögðum,“ sagði Trump og hvatti stjórnvöld allra ríkja til að ákæra og sækja alla þá til saka sem ráðast að fólki á grundvelli trúarbragða. „Einnig þá sem skemma eða eyðileggja bænahús, minnisvarða eða staði sem hafa trúarlegt gildi.“

Trúfrelsi er af skornum skammti í heiminum, en um það bil 80% fólks býr í löndum þar sem trúfrelsi er ógnað, takmarkað eða bannað. „Þegar ég heyrði töluna, þá ætlaði ég ekki að trúa þessu! Ég bað um staðfestingu á henni, og því miður var það rétt, 80%. Það var löngu orðið tímabært að halda viðburð sem þennan,“ sagði Trump, sem kvað það mikinn heiður að vera fyrsti Bandaríkjaforsetinn til að eiga frumkvæði að ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um trúfrelsi. Trump kvaðst mikill stuðningsmaður trúfrelsis, en ríkisstjórn hans gerði t.a.m. lagabreytingu árið 2017, til að jafna stöðu trúfélaga í Bandaríkjunum gagnvart hinu opinbera (Johnson Amendment).

Trúfrelsi grundvöllur friðar og farsældar

„Bandaríkin eru stofnuð á þeirri grundvallarreglu að réttindin okkar komi ekki frá ríkisvaldinu, heldur frá almættinu. Þessari óhagganlegu staðreynd er lýst yfir í Sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna og römmuð inn í fyrsta ákvæði mannréttindakafla Bandarísku stjórnarskrárinnar. Höfundarnir skildu að enginn réttur er jafn mikilvægur friðsælu, velmegandi og dyggðum prýddu þjóðfélagi, og rétturinn til að fylgja trúarlegri sannfæringu sinni,“ sagði Trump.

Utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Mike Pompeo, hélt í fyrra þing til eflingar trúfrelsis í heiminum. Á þinginu í ár standi til að stofna til samvinnu ríkja sem vilja vinna að trúfrelsi og stöðva ofsóknir gagnvart trúuðum. Trump kvað ríkisstjórn sína ætla að veita 25 milljónum Bandaríkjadala til viðbótar, í verkefni tengdum vernd trúfrelsis og trúarlega mikilvægum stöðum. Jafnframt hafi stjórn hans fengið atvinnulífið til liðs við sig, í þeim tilgangi að stuðla að vernd einstaklinga á vinnustað með tilliti til trúar viðkomandi. Trump hefur stofnað starfshóp til að vinna gegn gyðingahatri og vill að staðið verði í lappirnar við að verja kristna, sem eru ofsóttasti hópur trúaðra í heiminum í dag.

„Hugsið ykkur bara, ellefu manns eru myrt daglega [að meðaltali], fyrir að fylgja því sem Kristur kenndi. Hverjum hefði dottið í hug, að slíkt gæti átt sér stað í nútímanum?“

Ræðuna má sjá hér.