Trump sálgar ofmetnasta hershöfðingja Írans

Bifreið Qassim Suleimani stendur í björtu báli eftir að flugskeyti hæfði hana við flugvöllinn í Baghdad. Mynd/Íraska forsætisráðuneytið.
Donald Trump.

Suleimani vildi gera Íran að heimsveldi, en keyrði landið þess í stað ofan í svaðið.

„Dag einn gæti Trump forseti fengið götu nefnda eftir sér í Teheran. Af hverju? Vegna þess að Trump fyrirskipaði drápið á hugsanlega heimskasta og ofmetnasta manninum í Íran og Miðausturlöndum: Qassim Suleimani hershöfðingja.“

Um þetta ritar sérfræðingur The New York Times í málefnum Miðausturlanda, Thomas L. Friedman, í grein sem þar birtist í fyrradag.

Viljinn gerði samantekt og þýddi.

„Pælið í mistökunum sem þessi gaur [Suleimani] gerði. Árið 2015 samþykktu Bandaríkin og helstu evrópsk ríki, að aflétta nánast öllum refsiaðgerðum gegn Íran, mörgum frá árinu 1979, gegn því að Íran stöðvaði kjarnorkuvopnaáætlun sína í aðeins 15 ár, en héldi samt réttinum til friðsamlegrar kjarnorkuáætlunar. Þetta var frábært tilboð og hagvöxtur Írans jókst um rúm tólf prósent árið á eftir. En hvað gerði Suleimani við þetta tækifæri?

Valdagræðgi íranskra stjórnvalda gróf undan kjarnorkusamningnum

Qassim Suleimani.

Hann og æðsti leiðtogi Írans, settu af stað árásargjarna yfirráðastefnu á svæðinu, sem gerði Íran, og útsendara þess, að raunverulegu ráðandi afli í Beirút, Damaskus, Bagdad og Sana. Þetta ógnaði bandarískum bandamönnum í Súnní-arabaheiminum og Ísrael – sem þrýstu á stjórn Trump til að bregðast við. Sjálfur var Trump ákafur í að rífa sundur samninga sem Obama fyrrum forseti hafði gert, svo að hann yfirgaf kjarnorkusamkomulagið, og lagði refsiaðgerðir á Íran. Íranska hagkerfið hefur í framhaldinu skroppið saman um tæp tíu prósent og atvinnuleysi er komið yfir 16 prósent.

Til hvers fóru írönsk stjórnvöld þessa leið? Til að Teheran geti stjórnað í Beirút, Damaskus, Bagdad og Sana. Hver voru önnur verðlaun?

Þar sem að sjóðir Teheran stjórnarinnar fara nú þverrandi, þurftu æjatollarnir að hækka bensínverð, sem hratt af stað miklum mótmælum heima fyrir. Það krafðist harðra aðgerða klerkastjórnarinnar gagnvart eigin þjóð, sem drap og fangelsaði þúsundir manna, og veikti þar með enn frekar lögmæti ríkisstjórnar sinnar.

Mótmæli írönsku þjóðarinnar gegn stjórnvöldum í Íran í nóvember sl. Mynd/Wikipedia

Þá ákvað „hernaðarsnillingurinn“ Suleimani að halda uppi stjórn Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, og aðstoðaði þar með við dráp á hálfri milljón Sýrlendinga í leiðinni. Hann var svo sannfærður um eigið ágæti, að hann reyndi að beita Ísraela beinum þrýstingi, með því að reyna að flytja nákvæmnisstýrðar eldflaugar frá Íran til íranska umboðssveita í Líbanon og Sýrlandi.

Vanmat á vörnum Ísrael eftir sigurinn á Íslamska ríkinu

Því miður komst Suleimani að því að átök við Ísrael – sérstaklega samanlagðan flugherinn, sérsveitirnar, leyniþjónusturnar og netið – er ekkert í líkingu við að berjast við framverði Nusra eða Íslamska ríkið. Ísraelsmenn slógu harkalega til baka, sendu helling af Írönum heim frá Sýrlandi í líkkistum, og hröktu útsendara þeirra lengst inn í Vestur-Írak.

Reyndar hafði ísraelska leyniþjónustan borað sig svo vandlega inn í Quds-sveit Suleimani, og umboðsmenn hennar, að ef Suleimani hefði látið lenda flugvél með skotfærum í Sýrlandi klukkan 17, hefði ísraelski flugherinn verið búinn að eyða henni kl. 17.30. Menn Suleimani voru eins og fiskar í búri. Ef Íran væri með frjálsa fjölmiðlun og lýðræðislega virka stjórnskipun, hefði hann þegar verið settur af vegna óstjórnar.

En það batnar, eða reyndar versnar, fyrir Suleimani. Margir minnast hans fyrir að hafa leitt baráttuna gegn Íslamska ríkinu í Írak, í þegjandi samkomulagi við Bandaríkin, og það er rétt. En það sem þeir sleppa að minnast á, er að valdagræðgi Suleimani og Írans í Írak, hjálpaði til við að skapa Íslamska ríkið til að byrja með.

Það voru Suleimani og félagar hans í Quds-sveitinni, sem þrýstu á Sjíta forsætisráðherra Íraks, Nuri Kamal al-Maliki, til að ýta Súnníum úr írösku stjórninni og hernum, hætta að greiða Súnní hermönnum laun, myrða og handtaka fjölda friðsamlegra Súnní mótmælenda, og almennt breyta Írak í trúarofstækisríki Sjíta. Íslamska ríkið var mótsvar við því.

Lýðræðisöflum vex ásmegin í Arabaríkjunum

Að lokum var það heimsvaldastefna Suleimani í Miðausturlöndum sem gerði Íran að hataðasta ríki svæðisins í augum ungrar og vaxandi hreyfingar lýðræðisafla – bæði Sunnía og Sjíta – í Líbanon, Sýrlandi og Írak.

Eins og íransk-ameríski fræðimaðurinn Ray Takeyh benti á í skynsamlegri ritgerð í Politico, að á undanförnum árum „hóf Soleimani að útvíkka heimsveldið Íran. Í fyrsta skipti í sögu landsins varð Íran sannkallað áhrifavald, og teygði áhrif sín frá bökkum Miðjarðarhafs til Persaflóa. Soleimani skildi að Persar væru ekki tilbúnir til að deyja á fjarlægum vígvöllum í þágu Araba, svo að hann einbeitti sér að því að ráða Araba og Afgana sér til aðstoðar. Hann státaði sig oft af því að geta stofnað hersveitir á skömmum tíma og sent þær fram gegn óvinum Írans.“

Það voru einmitt umboðsmenn Suleimani – Hizbollah í Líbanon og Sýrlandi, hin vinsælu hreyfingaröfl í Írak og Houthis í Jemen – sem stofnuðu írönsk Sjíta-ríki innan allra þessara landa. Það voru einmitt þessi ríki innan ríkja sem hjálpuðu til við að koma í veg fyrir að nokkur þessara landa sameinuðust, leyfðu spillingu að grassera, og hindruðu þau í að þróa innviði á borð við skóla, vegi og raforkukerfi.

Þess vegna voru það Suleimani og umboðsmenn hans – „kóngsmenn“ þeirra í Líbanon, Sýrlandi og Írak – sem urðu æ sýnilegri og hataðri sem heimsveldi á svæðinu, og jafnvel meira svo en Trump forseti Bandaríkjanna. Þannig spruttu vinsælar og ósviknar lýðræðishreyfingar fólksins upp í Líbanon og Írak, sem sameinuðu Súnnía og Sjíta í að krefjast lýðræðislegrar og óspilltrar stjórnunar.

Vaxandi róstur og óánægja í Írak vegna afskipta Írans

Þann 27. nóvember síðasliðinn, brenndu íraskir Sjítar – já, íraskir Sjítar – niður írönsku ræðismannsskrifstofuna í Najaf í Írak, fjarlægðu íranska fánann af byggingunni og drógu íraska fánann að húni. Það var eftir að íraskir Sjítar höfðu áður kveikt í írönsku ræðismannsskrifstofunni í Basra í september 2018, og hrópað formælingar vegna afskipta Írans af íröskum stjórnmálum.

Öll „mótmælin“ gegn sendiráði Bandaríkjanna í Bagdad í síðustu viku, voru nær örugglega sviðsett af Suleimani til að láta líta út fyrir að Írakar vildu losna við Bandaríkin, þegar í reynd var það öfugt. Mótmælendunum var greitt fyrir af írönskum herforingjum. Enginn í Bagdad lét blekkjast af þessu.

Á vissan hátt var fall Suleimani falið í þessari aðgerð. Hann reyndi að hylja mistök sín í Írak með því að ögra Bandaríkjamönnum þar. Hann lét gera sprengjuárásir á þá, í von um að Bandaríkin myndu bregðast við með offorsi og drepa Íraka, og snúa írösku þjóðinni þannig gegn Bandaríkjunum. En Trump beit ekki á agnið og drap Suleimani í staðinn.

Ég hef ekki hugmynd um hvort þetta hafi verið skynsamlegt, eða hverjar verði afleiðingarnar til lengri tíma litið. En hér er tvennt sem ég veit um Miðausturlönd.

Í fyrsta lagi, oft í Miðausturlöndum er hið gagnstæða við „vont“ ekki „gott.“ Andstæða hins „vonda“ reynist oft vera „upplausn.“ Bara vegna þess að vondur kall eins og Suleiman er horfinn, þýðir það ekki góður kall, eða góð stefnubreyting, komi í staðinn. Suleimani er hluti af kerfi sem kallast Íslamska byltingin í Íran. Sú bylting hefur notað olíupeninga og ofbeldi til að hanga á völdunum síðan árið 1979 – og það er harmleikur Írans, harmleikur sem dauði eins íransks hershöfðingja mun ekki breyta.

Íran á stórkostlega menningu og dýrmætan mannauð

Arfleifð Írans er forn siðmenning, landið er heimili gríðarlega hæfileikaríks fólks og stórmerkilegrar menningar. Hvert sem Íranir fara í heiminum í dag, þrífast þeir sem vísindamenn, læknar, listamenn, rithöfundar og kvikmyndagerðarmenn – nema í íslamska lýðveldinu Íran, þar sem aðal útflutningsgreinin er sjálfsmorðsárásir, netglæpir og skæruliðaforingjar. Sú staðreynd að Suleimani var líklega frægasti Íraninn á svæðinu, sýnir innihaldsleysi stefnu klerkastjórnarinnar, og hvernig hún hefur sóað lífi tveggja kynslóða Írana með því að leita eftir viðurkenningu landsins á kolrangan hátt.

Hlið þjóðanna í Persepolis. Mynd/Wikipedia

Hitt veit ég að í Miðausturlöndum gerist öll mikilvæg pólitík „morguninn eftir morguninn eftir“.

Á næstu dögum munu verða hávær mótmæli í Íran, brennsla bandarískra fána og harmagrátur yfir „píslarvottinum.“ Morguninn eftir morguninn eftir? Það verða þúsundir hljóðlátra samtala í Íran sem ekki verður greint frá. Þau munu snúast um skaðsemi þeirra eigin ríkisstjórnar, og hvernig hún hefur eytt auði og hæfileikum Írans, í heimsvaldabrölti sem hefur gert Íran hatað í Miðausturlöndum.

Og já, morguninn eftir munu Súnní-​​arabískir bandamenn Bandaríkjanna fagna dauða Suleimani í hljóði, en við megum aldrei gleyma því að það er vanvirkni margra Súnní-arabískra ríkja – skortur á frelsi, nútíma menntun og valdeflingu kvenna – sem gerði þau svo veik fyrir, að Íran gat yfirtekið þau innan frá með útsendurum sínum.“