Trúnaðarbrestur milli Miðflokks, þings og þjóðar: Vík milli vina

Óhætt er að segja, að vík sé orðin milli vina hjá Miðflokknum og Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Greint hefur verið frá grófum athugasemdum þingmanna Miðflokksins í garð Lilju þar sem þeir sátu við drykkju í síðustu viku og hefur Lilja nú lýst því yfir að yfirlýsingar þingmannanna séu óafsakanlegar.

„Yfirlýsingar þingmanna Miðflokksins eru óafsakanlegar. Trúnaðarbrestur hefur átt sér stað milli þeirra, þings og þjóðar. Það orðfæri og sleggjudómar sem orðið hafa tilefni fréttaskrifa í dag lýsa vanmætti, ótta og úreltum viðhorfum,“ segir Lilja í færslu á samskiptamiðlum í kvöld.

Hún hefur um árabil verið náin vinkona Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar formanns Miðflokksins og var m.a. ráðgjafi hans í forsætisráðuneytinu meðan hann var forsætisráðherra. Unnu þau náið saman meðan bæði voru í Framsóknarflokknum.

Á upptökum sem sendar voru nafnlaust til Stundarinnar og DV má heyra þingmenn Miðflokksins kalla Lilju tík. Henni sé ekki treystandi og hún spili með karlmenn, eins og konur kunni að gera. Fleiri ummæli eru viðhöfð sem eru þess eðlis, að Viljinn kýs að hafa þau ekki eftir.

Þingmenn Miðflokksins hafa stigið fram og beðist afsökunar á framkomu sinni þetta kvöld.