Tvö ár að komast á biðlista eftir aðgerð – þá hófst biðin þar

Kristinn Pétursson komst loksins í langþráða aðgerð í fyrradag.

„Stór hluti kerfisins virðist meðvirkur um að þetta eigi að vera svona“, sagði Kristinn Pétursson, verkefnisstjóri, í samtali við Viljann, en hann gafst upp á hindrunum og bið eftir að komast í aðgerð í heilbrigðiskerfinu.

Kristinn sagði frá því á facebook í gær, að eftir að hafa glímt við heilbrigðiskerfið í tvö ár til að fá að fara í mjaðmarliðsskiptaaðgerð, hafi hann gefist upp og farið í aðgerð á Klíníkinni í Ármúla. Hann var orðinn hættur geta unnið erfiðari verk og var orðinn „illa farinn af verkjalyfjaáti“.

Þótti of ungur til að mega fara í aðgerðina – 65 ára gamall

„Ég var búinn að tala við nokkra sérfræðinga, þar á meðal þrjá gigtarlækna. Einn þeirra sagði mér einn að ég væri ekki nógu gamall til að fara í mjaðmarliðskiptaaðgerð.“ Kristinn, sem nú er 67 ára, var 65 ára þegar hann leitaði fyrst til lækna út af mjöðminni. Rök eins þeirra voru aðgerðin entist bara í 15 ár.

Í tvö ár þurfti hann því að kveljast „mismikið og taka allt of mikið af óhollum gigtarlyfjum“, áður en hann komst formlega á biðlista eftir aðgerð á Landspítalanum.

„Ég var orðinn mjög slæmur í maganum af öllum þessusm gigtar- og verkjalyfjum, þau orsaka blæðingar í meltingarvegi. Það var ekki fyrr en ég gat ekki lengur unnið erfiðari vinnu, sem ég komst formlega á þennan fræga biðlista sem á eru um 1.000 manns.“

Eftir hálft ár á biðlista engar upplýsingar um aðgerðina

Á listann komst Kristinn loksins í júlí í fyrra, en síðan þá hafi hann ekki geta fengið staðfest hvenær aðgerðin yrði á dagskrá.

„Allt kerfið virðist meðvirkt með að þetta eigi bara að vera svona, að draga eins lengi og hægt er að setja fólk á biðlista, og láta það svo bíða þar í allt að tvö ár.  Tilfinningu fyrir þessari tregðu fær maður allsstaðar, ég er búinn að fara víða, til Akureyrar, á Borgarspítalann, Akranes. Ég lenti á slysadeild eitt skiptið þegar ég festist með mjöðmina í „læstri stöðu“ og gat mig hvergi hrært.“ Þar varð hann að bíða í fimm klukkustundir frammi á gangi, eftir að nágrannar hans höfðu komið honum til bjargar og hringt á sjúkrabíl.

Gat ekki meir og borgaði fyrir aðgerðina sjálfur

Í desemberbyrjun gafst hann upp á biðinni hafði samband við Klíníkina í Ármúla.  Þar beið Kristinn í aðeins 10 mínútur áður en honum var sagt að hann gæti komið í aðgerð 4 vikum seinna, eða 6. janúar. Aðgerðin kostar 1,2 milljónir króna og fjölskyldan hljóp undir bagga með kostnaðinn.

Að hans sögn heppnaðist aðgerðin, sem var í fyrradag, vel. Hann er bjartsýnn á að geta farið í ræktina og byrjað að vinna aftur fljótlega.

Hann segir að lokum að hann hafi samúð með heilbrigðisstarfsmönnum, og vill ekki kenna þeim um hvernig kerfið er.

„Ég sé á starfsfólkinu að það er undir álagi – og eiginlega verið að „brenna það yfir“, maður skynjar vanmátt þeirra sem geta ekki veitt aðstoð.“