Tvö innanlandssmit greindust á Íslandi í gær í tveimur aðgreindum málum. Báðir einstaklingar eru með einkenni COVID-19 veirunnar og eru komnir í einangrun. Í öðru málinu hafa nokkrir verið settir í 14 daga sóttkví.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Almannavörnum. Í hinu málinu hafa á þriðja tug verið settir í sóttkví. Þar hafði einstaklingur tekið þátt í frjálsíþróttamóti í Hafnarfirði um síðustu helgi.
Þeir sem voru útsettir fyrir smiti eru komnir í 14 daga sóttkví en smitrakningu er þó ekki lokið. Frjálsíþróttasamband Íslands er meðvitað um stöðuna og vinnur að því að gera viðeigandi ráðstafanir.
Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis biðja fólk sem sótti umrætt frjálsíþróttamót að gæta varúðar og huga að einstaklingsbundnum smitvörnum. Leiki minnsti vafi á hvort einkenni Covid-19 veirunnar séu til staðar er sá hinn sami beðinn um að fara í sýnatöku á næstu heilsugæslustöð.