Ráð rétttrúnaðarkirkjunnar í Úkraínu stofnaði laugardaginn 15. desember nýja þjóðkirkju Úkraínu og kaus henni leiðtoga. Með þessu eru kirkjuleg tengsl slitin við Rússa. Þykir ákvörðunin enn til marks um stjórnmálaleg og hernaðarleg spenna magnist milli nágrannaþjóðanna. Ágreiningur er innan kirkjunnar í Úkraínu vegna ákvörðunarinnar.
Pedro Porosjenkó, forseti Úkraínu, staðfesti ákvörðun prestastefnunnar sem haldin var í sögufrægri dómkirkju heilagrar Sófíu í Kænugarði. Forsetinn sagði að Epifany, erkibiskup Patríarkakirkjunnar í Kænugarði, hefði verið kjörinn leiðtogi nýju kirkjunnar. „Þessa dags verður minnst sem heilags dags … dagsins þegar endanlegt sjálfstæði fékkst frá Rússlandi,“ sagði forsetinn við hóp fólks fyrir framan dómkirkjuna í hjarta Kænugarðs.
Frá því að Rússar innlimuðu Krímskaga í óþökk Úkraínumanna árið 2014 hafa slit við rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna verið til umræðu í Úkraínu. Nú þegar dregur að forsetakosningum vill Porosjenkó reyna að treysta stöðu sína meðal kjósenda með því að berjast fyrir þessum kirkjuklofningi.
Áform Úkraínumanna um sjálfstæða kirkju fengu vind í seglin þegar fremstur meðal jafningja innan allra rétttrúnaðarkirkna heims samkirkjulegur patríarki þeirra Barþólomeus I af Konstantínópel viðurkenndi sjálfstæði Úkraínumanna gagnvart rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni.
Með ákvörðun sinni rifti hann 332 ára gömlum fyrirmælum um að Úkraínumenn skyldu falla undir patríarkann í Moskvu. Vegna þessa sleit rússneska kirkjan öll tengsl við patríarkann í Konstantínópel. Litið er á þá sem leiða rétttrúnaðarkirkjuna í Konstantínópel sem forystumenn innan kirkjunnar á heimsvísu en alls eru það um 300 milljónir manna.
Um helmingur þessa fólks er í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni sem er í nánum tengslum við rússneska ríkisvaldið og þó sérstaklega við Vladimír Pútín forseta.
Þrjár kirkjudeildir eru innan rétttrúnaðarkirkjunnar í Úkraínu. Fulltrúar þess hluta hennar sem fellur undir patríarkann í Moskvu, þar sem er að finna flesta presta, kirkjur og klaustur, tóku ekki þátt í stofnfundi nýju kirkjunnar og lýsa hollustu við kirkjuhöfðingja í Moskvu. Rússneska rétttrúnaðarkirkjan lítur enn á Úkraínu sem hluta af landsvæði sínu.
Stefnt er að því að Barþólomeus I. verði í Kænugarði 6. janúar 2019 og leggi þar blessun yfir nýju þjóðkirkjuna. Fari svo að allir trúaðir í Úkraínu gangi til liðs við nýju kirkjuna verður það stór hópur fólks því að um 67% af 45 milljónum íbúa í landinu fylgja einhverri grein rétttrúnaðarkirkjunnar.
Heimild: DW. Af síðunni vardberg.is og birt með leyfi.