Um leið og einhver hnerrar hleypur fólk í allar áttir

Inga Sæland, formaður Flokks fólksins.

„Í svona málum skiptir auðvitað máli að við byggjum á gagnreyndum aðferðum sem hafa virkað og gefist vel. Yfir þetta hefur verið farið bæði á vettvangi þjóðaröryggisráðs, sérstökum fundum mínum með sóttvarnalækni sem og á ríkisstjórnarfundum og það eru hinar almennu forvarnir sem gefast best og eru hinar gagnreyndu aðferðir,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra á Alþingi í gær er hún svaraði fyrirspurn Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um viðbrögð og ráðstafanir hér á landi við Kórónaveirunni, sem nú er að valda miklum usla um allan heim.

„Þjóðir heims hafa reynt ýmsar aðferðir, til að mynda að byggja upp skimanir á alþjóðaflugvöllum og annað slíkt, sem ekki komu í veg fyrir útbreiðslu veirusýkinga. Þannig að þegar við erum að taka ákvarðanir um skref verður að byggja á þeim gögnum og rannsóknum sem við eigum. Ég get fullvissað hv. þingmann og alla aðra hv. þingmenn um að okkar fólk, hvort sem það er í almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, heilbrigðisstofnunum eða hjá sóttvarnalækni, er svo sannarlega í viðbragðsstöðu, tekur stöðuna tvisvar á dag um útbreiðslu veirunnar til þess að við getum sem best brugðist við því og reynt að hefta útbreiðslu hennar hér á landi,“ bætti hún við.

Inga Sæland lýsti áhyggjum sínum af þróun mála og kvaðst velta því fyrir sér, hvernig í ósköpunum við eigum að vita hvort við erum smituð og við hvern eigi að tala.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

„Það er þó a.m.k. vitað að við getum gengið með þessa veiru og verið smitandi í allt að tvær vikur án þess að finna fyrir einkennum. Fyrirspurnin kemur ekki bara í kjölfarið á þessum skelfilegu fréttum sem bárust frá Norður-Ítalíu heldur bara af því að fara í IKEA í gær, bara af því að vera innan um þúsundir manna og um leið og einhver hnerrar verður maður var við að fólk hleypur í allar áttir,“ sagði hún.

„Hvernig eigum við að grípa til forvarna gagnvart þessu þegar við erum hér að taka inn að lágmarki 30.000 ferðamenn á viku? Við erum að mínu mati rosalega berskjölduð. Mig langaði að vita hvað verið sé að gera til að sporna gegn því að þessi veira berist til landsins frekar en að vera með forvarnir þegar við vitum ekki hve umfangsmikið þetta verður þegar og ef það kemur,“ bætti Inga við.