Dr. Mohammad bin Abdul Karim Al-Issa, aðalritari Heimssambands múslima (e. Muslim World League), f.v. dómsmálaráðherra og ráðgjafi konungs Saudi-Arabíu, heldur í boði Trúarbragðafræðistofu Háskóla Íslands fyrirlesturinn „Interfaith Dialogue Between Muslims and Christians‟ í dag kl. 15 í Háskóla Íslands, í salnum Veröld, V023. Frá þessu greinir Bjarni Randver Sigurvinsson trúarbragðafræðingur á facebook-síðu sinni í gær.
Al-Issa hefur, eftir því sem segir í færslunni, frá því að hann tók við embætti árið 2016, lagt áherslu á baráttuna gegn trúarlegum öfgastefnum innan íslam og átt fundi með trúarleiðtogum víða um heim. Að frumkvæði hans hefur Heimssamband múslima hafið náið samstarf við nokkur af helstu alþjóðasamtökum gyðinga, rússnesku rétttrúnaðarkirkjuna og rómversk-kaþólsku kirkjuna. Hann hefur stutt umbætur saudi-arabíska krónprinsins í þá átt að draga úr áhrifum trúarbragðalögreglunnar, leyfa konum að keyra bíla og að leyfa skemmtanir á borð við kvikmyndasýningar og tónleikahöld, en fjallað er um þetta í grein í Eurasiaview í maí sl.
Fyrsta messan í Saudi-Arabíu haldin fyrir tæpu ári
Al-Issa átti tímamótafund með Frans páfa í Vatíkaninu árið 2017, en í kjölfar þess var einum æðsta kardínála rómversk-kaþólsku kirkjunnar boðið í opinbera heimsókn til Saudi-Arabíu. Fyrir tæpu ári var fyrsta messan haldin í Saudi-Arabíu, eftir fund eins af æðstu biskupum koptísku kirkjunnar í Egyptalandi með Al-Issa. Áður hafði saudi-arabíski krónprinsinn, Mohammed bin Salman, átt fund með Tawadros II páfa í koptísku dómkirkjunni í Kaíró í Egyptalandi.
Í maí sl. sendi Heimssamband múslima frá sér Sáttmála Mekku (e. The Charter of Makkah) um samskipti múslima við fólk af öðrum trúarbrögðum. Sáttmálinn er kynntur sem mikilvægasta skjal sem gefið hafi verið út á síðari tímum, í sögu íslams, og eini sáttmálinn sem gefinn hafi verið út frá útgáfu Sáttmála Medínu sem Múhameð spámaður á sjálfur að hafa samið. Að Sáttmála Mekku standa rúmlega 1.200 íslamskir fræðimenn og múftar frá 27 löndum múslima, og eru þeir sagðir fulltrúar allra helstu hópa og deilda sem finna megi innan íslam.
Eftir áramót stefnir Al-Issa að því að heimsækja útrýmingarbúðirnar í Auschwitz í tengslum við þvertrúarlegan fund með leiðtogum gyðinga, en á meðal þess sem hann segir er að berjast þurfi gegn gyðingahatri og afneitun á Helförinni.
Al-Issa er með doktorsgráðu í lögfræði frá Imam Muhammad bin Saud University.