Umferðaráætlanir borgarinnar byggðar á óskhyggju

Dr. Haraldur Sigþórsson, umferðarverkfræðingur í viðtali á Hringbraut.

„Ég hef verið þeirrar skoðunar að áætlanir borgarinnar byggi á verulegum hluta á óskhyggju“, sagði Haraldur Sigþórsson, umferðarverkfræðingur, í þættinum hjá Birni Jóni Bragasyni á Hringbraut í vikunni.

Hann sagði að tölur sem borgaryfirvöld ætli sér í framtíðinni um fjölgun hjólreiða og aukningu í almenningsvagnasamgöngum, séu allt of háar. „Þau gera ráð fyrir allt of mikilli breytingu, þetta mun aldrei geta orðið. Það er rétt að efla almenningssamgöngur, en til dæmis Borgarlínan, hún gengur allt of langt, hún er allt of dýr. Hún mun breyta mjög ásýnd borgarinnar.“

„Til þess að Borgarlínan verði notuð að einhverju leyti, þá þarf að byggja upp stóra byggðakjarna, og þetta verður alveg rándýrt. Það þarf að byggja nálægt stofnbrautunum og í kringum stoppistöðvarnar. Þetta er held ég einum of langt gengið.“ 

Hann segir að í staðinn mætti vera með forgang fyrir Strætó og efla hann í umferðarkerfinu í staðinn.

„Borgarlínan verður kannski tilbúin eftir 20 ár í heild. Þá verður umferðarmynstrið kannski breytt og komnir sjálfkeyrandi bílar. Þá sitjum við uppi með þunglamalegt kerfi sem engin þörf er á og þetta er svo dýrt. Það sem ég tel mest liggja á, endurbætur í gatnakerfinu, mislæg gatnamót, lenging akreina og lagfæringar á  ýmsum aðstæðum í kringum stofnbrautirnar.“

Illa gengur að auka þátt almenningsvagnasamgangna

Spurður um ástæður umferðarþungans í borginni, sagði Haraldur: „Það er mjög lítið framkvæmt, fáar vegaframkvæmdir, og lítið gert fyrir bílaumferð. Það hefur að vísu verið lagðir stígar fyrir hjólreiðar og ýmsar smærri framkvæmdir, en allar stóru framkvæmdirnar hafa ekki verið gerðar.“

Árið 2012 hafi verið tekin ákvörðun um að hætta við margar og viðamiklar framkvæmdir skv. samningi Samtaka sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og Vegagerðarinnar.

„En síðan er liðinn nokkuð langur tími og að mörgu leyti hefur þetta gengið illa. Byggt var upp stofnvegakerfi hljólreiða, en illa hefur gengið að auka þátt almenningsvagnasamgangna.“

Spurður hvaða framkvæmdir hafi verið teknar út af skipulaginu, sagði Haraldur: „Hugmyndir eins og gatnamót þvergatna á Miklubraut, gatnamót Reykjanessbrautar og Bústaðavegar og það verið að spá í Sundabraut. Á þessum gatnamótum hefur ekkert batnað, bara versnað. Umferð hefur aðeins farið vaxandi, þvert ofan í það sem menn óskuðu sér.“

„Hugmyndin í dag er að leggja áherslu á almenningsvagnasamgöngur og hjólreiðar, en síður á bílaumferð. En að mínum dómi og annarra, þarf að leggja áherslu á alla samgöngumáta. Það er nú þannig að langflestir aka um á einkabílnum og það þarf líka að gera eitthvað fyrir þann vegfarendahóp.“