Umræðan, umtalið og talsmátinn yfirleitt eru komin út í öfgar

Sr. Hjálmar Jónsson.

„Ég er búinn að starfa alla mína tíð við þjónustu í íslensku samfélagi, lengst af sem prestur, en einnig áratug í stjórnmálum. Ég er þess fullviss að með því að stilla orðum í hóf, takast á með rökum og vinna okkur þannig fram til niðurstöðu í hverju máli verðum við miklu farsælli þjóð, miklu ánægðari, nægjusamari.“

Þetta segir sr. Hjálmar Jónsson fv. dómkirkjuprestur og alþingismaður í samtali við Viljann. Hann hefur áhyggjur af ákveðinni þróun í íslensku samfélagi og finnst sem margt sé að fara svolítið úr böndunum.

„Á Alþingi, á síðasta áratug síðustu aldar, var ánægjulegt, gefandi, áhugavert, að starfa þar. Tekist var á en fólk virti hvert annað. Mér finnst umræðan, umtalið og talsmátinn yfirleitt, komin út í öfgar. Mér finnst líka þjóðfélagsumræðan komin í ógöngur,“ segir hann.

„Þetta eru sjálfsagt barnasjúkdómar, sem fylgja því að nú er hver einstakur maður, karl og kona, ritstjóri fréttamiðils á tímum samfélagsmiðla. Kannski hreinsast þetta allt saman, kannski lærum við að sigta og sía. En núna finnst mér ógn og öfgar vera mjög áberandi,“ bætir hann við.

Miklu betri foreldrar en við vorum

Sr. Hjálmar segir að því fari fjarri að allt hafi þróast til verri vegar. Margt sé miklu betra nú en í gamla daga. Til dæmis sé margt ungt fólk betri foreldrar en fyrri kynslóðir, gefi börnum sínum miklu meiri tíma en hans kynslóð hafi gert. Hann sjái þetta vel í því hvernig börnin hans ala upp sín börn.

„En æpandi umræða og vanstilltar upphrópanir á samfélagsmiðlum spilla fyrir þessari góðu viðleitni foreldra,“ segir hann.

Hjálmar bendir á að hamingjan sé eftirsóknarverðust alls og hvetur til þess að fólk stilli umræðunni í hóf. Fólk tali meira saman, rökræði sem manneskjur sem stefni að farsæld og friði og telji saman að sátt og friður sé ákjósanlegt markmið.

Orti sálm í tilefni fullveldisafmælisins

Um þessar mundir fagna Íslendingar aldarafmæli fullveldisins. Hjálmar samdi af því tilefni sálm fyrir nokkrum vikum og verður hann frumfluttur í fullveldismessu þann 2. desember næstkomandi — nú á sunnudag — í Dómkirkjunni í Reykjavík. Verður útvarpað beint frá messunni í Ríkisútvarpinu.

Dómkirkjan í Reykjavík.

Sálmurinn heitir Hundrað ár og fer hér á eftir:

Hundrað ár

Hundrað ár af ævisögu þjóðar,
augnablik á kvarða tilverunnar.
Aldir koma, aldir fara hljóðar,
eins og hendi veifað burtu runnar.

Flest er breytt og bætt um landsins hagi,
blessast hefur líf af öllu tagi.
Brýnt er enn þótt aukist mannsins geta
eilíft gildi kristins siðar meta.

Lát mig finna leið til þess sem göfgar,
ljómi dýrðar þinnar hugann fylli.
Gef mér trú sem forðast ógn og öfgar,
eflir frið og kærleik fólks í milli.

Hjálmar Jónsson

„Sálmurinn, já. Kveikjan að honum var samtal við eftirmann minn í Dómkirkjunni, sr. Svein Valgeirsson. Hann vill minnast tímamótanna af hálfu Dómkirkjunnar sem best,“ segir Hjálmar við Viljann.

Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi lag við ljóðið.