Ýmsu sem engu skiptir eða litlu hefur verið blandað inn í aðdraganda ákvarðanatöku varðandi innleiðingu þriðja orkupakkans í íslensk lög og snýst það tal gjarnan um það hvort hætta af málinu sé á þessu stigi lítil eða mikil og hvort Íslendingar geti fengið að hafa einhverja aðkomu að framtíðarstjórnun þess þótt lokaorðið sé komið annað. Ekki sé endilega víst að þetta eða hitt komi upp í málinu og verði vandamál.
Þetta skrifar Davíð Oddsson, fv. forsætisráðherra og ritstjóri Morgunblaðsins í Reykjavíkurbréfi blaðsins sem kom út í dag. Hann segir að þetta séu allt „fjasspurningar“. Þær spurningar, sem þurfi að svara séu: Er eitthvað í þessu máli fyrir okkur Íslendinga? Svarið við því er nei. Heimilar stjórnarskrá okkar yfirfærslu valds í þessum málaflokki. Svarið við því er líka nei. Af hverju í ósköpunum er þá málið enn að þvælast fyrir stjórnmálamönnum hér á landi?
Ekki risið undir traustinu
Davíð var forsætisráðherra þegar Ísland gerðist aðili að Evrópska efnahagssvæðinu (EES). Hann er ekki hrifinn af öllu því sem gerst hefur í framhaldinu, svo vægt sé til orða tekið. Í raun má túlka orð hans þannig, að hann telji sig illa svikinn.
„Nú er komið á daginn að því fer algjörlega fjarri að þeim embættismönnum sem treyst var til að halda á hagsmunum Íslands eftir EES samninginn hafi risið undir því. Þeir hafa, eins og frú Thatcher orðaði það fyrir löngu flutt sitt ríkisfang og trúnað. Þeir hafa furðu fljótt tekið að líta á sitt hlutverk sem smala í hlutastarfi fyrir ESB. Er hægt að nefna nokkur dæmi um það.
Þetta þýðir að sjálfsögðu að þeir stjórnmálamenn sem fylgdu því eftir í góðri trú að samþykkja bæri aðild að Evrópska efnahagssvæðinu hafa verið illa sviknir. Embættismannakerfið hefur smám saman unnið að því að koma sér upp lögfræðilegum álitsgjöfum sem skrifa upp á hvað sem er í efnum sem þessum. Slíkir sýndu heldur betur á spilin sín í Icesave-málinu sællar minningar,“ segir Davíð.
„Enginn íslenskur þingmaður sem vitað er um les lengur yfir lagafrumvörp sem hingað berast frá ESB. Enda hvers vegna skyldu þeir gera það? Öllum hlýtur að ofbjóða undirlægjuháttur íslenskra ráðherra í málinu um orkupakkann.
Ísland er því að fá aukið hlutfall af stjórnun hins daglega lífs frá Brussel en gert var ráð fyrir við samþykkt EES-samninganna. Og enginn hefur verið um það spurður.
Og það kórónar svo ósvífnina að þessi óþarfa og óheillavænlega þróun er síðan notuð til að réttlæta kröfu um inngöngu Íslands í ESB, þar sem fullveldissviptingin sé hvort sem er þegar orðin svo ríkuleg í höndum íslenskra embættismanna,“ skrifar Davíð.