Undrast fjarveru vinstri flokkanna í kjarabaráttu láglaunafólks

Flosi Eiríksson framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins.

„Frá því ég var á menntaskólaaldri hef ég tekið þátt í margvíslegu starfi á vinstri væng þjóðmála, það hefur verið með misvirkum hætti og misformlegum,“ skrifar Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, í grein á Vísi í dag þar sem hann undrast fjarveru fólks úr vinstri flokkunum þegar kemur að kjarabaráttu láglaunafólks.

Flosi, sem var lengi virkur í Alþýðubandalaginu og Samfylkingunni og meðal annars lengi bæjarfulltrúi í Kópavogi, segir þetta mikla breytingu frá fyrri tíð, en margir hafa velt því upp hvort vinstri flokkarnir á Íslandi hafi fjarlægst grasrót sína í verkalýðshreyfingunni.

„Hluti þeirrar þátttöku hefur verið að mæta (stundum stopult) á alls kyns baráttu-, mótmælenda- og samstöðufundi með breiðri flóru af málefnum. Á þeim fundum hef ég dáðst að því óþreytandi baráttufólki sem virðist alltaf hafa tíma og orku til að mæta, styðja og hvetja, – hvernig sem viðrar og hvort sem það eru mannréttindamál, herinn, ný stjórnarskrá, ráðhúsið í Tjörninni, málefni flóttafólks eða kröfuganga 1. maí. Margt af þessu fólki kannast maður við og það hefur að meginstofni skipað sér í tvo stjórnmálaflokka, Samfylkinguna og Vinstri Græn.

Nú bregður svo við að láglaunafólk í Reykjavík er í kjarabaráttu og er með kraftmikinn baráttufund í Iðnó. Þá er svo til engin úr þessu mengi mættur, þá sér hvergi bregða fyrir áberandi félagsmönnum þessara flokka.

Nú skal varast að dæma bara út frá einum fundi, en ég hef heldur ekki séð blaðagreinar eða umræðu eða stuðning á samfélagsmiðlum, frá þessum félögum. Núna eru flokkarnir í meirihlutasamstarfi í Reykjavík og annar í ríkistjórn. Þá virðist sem ekki megi ,,rugga bátnum“ þá eru hugtök SA um ,,höfrungahlaup“ og ,,stöðugleika“ þeim næsta töm í munni. Hugsjónir um að standa með grundvallarbaráttu láglaunafólks víkja.

Þá talar fjarveran ein,“ segir Flosi Eiríksson.