„Það verður ekki undan því vikist að krefjast þess að Íslandsbanki gefi út afdráttarlausa yfirlýsingu um að hann muni ekki láta fjölmiðla með “afgerandi kynjahalla” gjalda þess að þeir eru skrifaðir fyrir tiltekna markhópa í okkar fjölbreytta kynjaða samfélagi, eins og til að mynda Gestgjafann, Vikuna, fotbolta.net, Smartlandið og Fiskifréttir, svo einhver dæmi séu tekin.“ Þetta er haft eftir formanni Blaðamannafélag Íslands (BÍ), Hjálmari Jónssyni í athugasemd við „Íslandsbankamálið“, skv. frétt á vef Blaðamannafélags Íslands í dag.
Viljinn og aðrir fjölmiðlar hafa fjallað um málið undanfarið, en markaðs- og samskiptastjóri Íslandsbanka, hafði gefið það út í pistli og í samtali við blaðamann Vísis að ætla ekki að auglýsa hjá fjölmiðlum þar sem konur væru í minnihluta sem dagskrárgerðarmenn og viðmælendur. Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, varði nýja markaðsstefnu bankans í samtali við fréttastofu RÚV og sagði það „af og frá“ að í þeim fælust viðskiptaþvinganir gagnvart fjölmiðlum.
Hjálmar spyr hvernig megi öðruvísi ávinna það traust sem glatast hafi „með þessum ótrúlega vanhugsuðu fyrirætlunum þriðju stærstu fjármálastofnunar þjóðarinar, sem hafa ekkert með jafnrétti að gera?“
Skortur á gagnsæi um stefnu bankans í málinu
„Það hlýtur einnig að verða að spyrja þess hvort sú afdrifaríka stefna að gera tilraun til að hafa áhrif á umfjöllun fjölmiðla með hótunum um að auglýsa ekki í þeim, hvort sem það er vegna jafnréttismála, loftslagsvár, heimsfriðar eða annarra góðra mála, sem við öll viljum leggja lið, hafi verið borin undir stjórn bankans og samþykkt þar? Í fljótu bragði er ekkert að finna um þessa jafnréttistefnu á heimasíðu bankans og ég sé ekki að hún hafi verið birt annarsstaðar. Er það ekki lágmarkið að banki í almannaeigu birti stefnu sína í þessum málum, svo hægt sé að rýna hana og jafnvel gagnrýna? Eða er það virkilega svo að þessu sé slegið fram í amstri dagana að óhugsuðu máli?
Stjórn bankans hlýtur að láta málið til sín taka og brýna fyrir starfsmönnum sínum að valdi fylgi ábyrgð. Stjórn bankans hlýtur einnig að hlutast til um það að bankinn setji sér opnar og gagnsæjar reglur um notkun auglýsingafjár, þannig að það sé hafið yfir allan vafa að þar ráði hlutlægni ferðinni. Ég vil trúa því að þannig hafi það verið til þessa.“