Var sjálfur fyrir siðanefnd en kvartaði til forsætisnefndar yfir sexmenningunum

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.

Ágúst Ólaf­ur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, og tveir aðrir þingmenn Samfylkingarinnar, voru meðal þeirra níu þingmanna sem óskuðu eftir því að forsætisnefnd Alþingis tæki fyrir framkomu sexmenninganna á Klausturbar og vísaði henni til siðanefndar þingsins.

Á sama tíma var þingmaðurinn til meðferðar í siðanefnd Samfylkingarinnar fyrir kynferðislega áreitni. Samfylkingin gerði enga tilraun til að greina frá málinu, þótt forysta flokksins gengi hart fram í svokölluðu Klausturmáli, en því var lokið af hálfu siðanefndar flokksins með formlegri áminningu í síðustu viku. Meðal annars sendi framkvæmdastjórn Samfylkingarinnar frá sér sérstaka samþykkt fyrir helgi þar sem samtöl og framganga þingmannanna á Klaustur var fordæmd og sagt að þeir væru rúnir öllu trausti.

Eftir að fjölmiðlar komust á snoðir um málið, steig Ágúst Ólafur fram á fésbók í gærkvöldi og greindi frá því að hann tæki sér tveggja mánaða leyfi vegna þessara ásakana.

Viljinn hefur sent fyrirspurn til framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar vegna málsins, en svör hafa ekki borist. Meðal annars var spurt var hvort aðrir kjörnir fulltrúar hefðu einnig komið fyrir nefndina vegna framkomu sinnar og hvernig það hefði verið afgreitt af nefndinni.

Á Fréttavef Morgunblaðsins í dag segist Heiða Björg Hilm­is­dótt­ir, vara­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, vona að Ágúst Ólaf­ur hafi birt yf­ir­lýs­ingu og frá­sögn frá sínu sjón­ar­horni með samþykki þoland­ans, sem varð fyr­ir áreitni af hans hálfu. 

Spurð hvort birt­ing yf­ir­lýs­ing­ar­inn­ar sam­ræm­ist verklagi flokks­ins seg­ir hún svo ekki vera.