Varaði við því að snjóflóðavarnargarður Flateyrar væri ófullnægjandi

Myndin sýnir hvar snjóflóðið árið 1995 lenti, og hvernig flóðið rann sitt hvoru megin bæjarins að þessu sinni, en þó ekki án þess að valda lífshættu og eignatjóni.

„Þáverandi forstjóri Landhelgisgæslunnar og formaður Almannavarna hringdi í mig í morgun og rifjaði upp að pabbi hefði komið á hans fund til að gera grein fyrir áhyggjum sínum af snjóflóðavörnunum og m.a. óttast að garðarnir yrðu ,,stökkpallar” fyrir snjóflóð sem á þeim lentu.“

Ragnar Önundarson.

Frá þessu segir Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur, á facebook-síðu sinni í gær, en faðir hans var Önundur Ásgeirsson, f.v. forstjóri, sem lést 2. febrúar 2015, 94 ára að aldri.

Snjóflóðavarnargarðurinn ofan við byggðina á Flateyri bjargaði talsverðu í snjóflóðinu 14. janúar sl., en margt fór úrskeiðis og litlu mátti muna að ung stúlka færist þegar flóðið þeyttist yfir varnargarðinn og skall á heimili hennar, auk þess sem talsvert tjón varð á bátum og mannvirkjum við höfnina.

„Það virðist einmitt hafa gerst að einhverju leyti núna,“ heldur Ragnar áfram. „Í síðustu grein sinni, sem hann skrifaði níræður, og fylgir hér á eftir, sér hann fyrir að eystri garðurinn nái ekki að verja höfnina. Sjá má á meðfylgjandi ljósmynd að garðurinn leiðir snjóflóð í stefnu beint à höfnina“, segir Ragnar. Hann segir föður sinn, sem var fæddur árið 1920, hafa ritað margar greinar í Mbl. um snjóflóðavarnir á æskustöðvum sínum, en hann var frá Sólbakka í Önundarfirði.

Myndin sýnir hvernig varnargarðurinn stýrir flóðum beint niður á höfnina.

Ragnar lét síðustu grein föður síns, frá 25. mars árið 2010, fylgja færslunni, sbr. hér á eftir:

Mbl. 25. mars 2010 |

Önundur Ásgeirsson.

Mistökin við snjóflóðavarnir á Flateyri
Eftir Önund Ásgeirsson

ÖNFIRÐINGAFÉLAGIÐ í Reykjavík hefir gefið út dagatal fyrir yfirstandandi ár í tilefni þess að 15 ár eru liðin hinn 25. október í ár frá snjóflóðaslysinu mikla árið 1995 þar sem 20 manns fórust. Myndin fyrir októbermánuð er tekin ofan af varnargarðinum neðan Skollahvilftar og er helguð minningu þessa atburðar og er það gert af góðum hug þeirra sem standa að dagatalinu. Gallinn er bara sá að varnargarðarnir eru staðsettir af ókunnugleika þeirra sem skipulögðu verkið og eru því rangt staðsettir frá upphafi. Eg ráðlegg öllum þeim sem komu að þessu verki að lesa það sem hér fer á eftir og að sýna þá hreinskilni að segja rétt frá tildrögum að þessum mistökum.

Snjóflóðahættan

Snjóflóð koma aðeins úr tveim giljum ofan Flateyrar, þ.e. Innra-Bæjargil að vestan og síðan Skollahvilft að austan. Milli þeirra er svo Eyrarfjall, en þaðan koma engin snjóflóð og varnargarðarnir sem byggðir voru neðan þess eru því gagnslausir. Fjallsbrúnin á Eyrarfjalli er í 700 metra hæð og myndar þar tvær skálar sem ná saman að framan. Mælt eftir fjallsbrúninni er Skollahvilftin þó um 5-6 sinnum stærri er skálin fyrir ofan Innra-Bæjargilið. Þessi stærðarhlutföll mátti einnig sjá af framburðinum fyrir neðan gilin, einnig nefndir Hryggir. Öll hættuleg snjóflóð falla niður þessi tvö gil.

Innra-Bæjargilið

Á ljósmynd Odds Sigurðssonar má sjá að snjóflóð fara niður þrönga skál á efri helmingi fjallsins. Þar neðan við er síðan hörð og slétt hraunklöpp sem liggur skáhallt niður í átt til Flateyrar. Leysingavatn úr skálinni að ofan hefir smám saman grafið djúpa rennu ofan klapparinnar sem varð til þess að lækurinn braut sér síðan leið austur fyrir hrygginn og niður í Merarhvamm. Þaðan lá síðan leið hans niður í efstu Lómatjörnina ofan Goðahólsins.
Allt sem þarna þurfti að gera var að sprengja klöppina strax neðan þrengslanna og hleypa læknum og snjóflóðunum beint niður á miðja Eyrarhjallana. Með nútíma sprengitækni er þetta næsta einfalt mál og endanleg lausn á snjóflóðavandamálinu fyrir Flateyri á þessum stað.

Skollahvilftin

Þetta er mesta hættusvæðið við Flateyri. Miðað við hæð fjallsins og aðrar aðstæður töldu Norðmennirnir frá NGI að reikna skyldi með að snjóflóðahætta væri á fullu fram til línu sem dregin yrði við Flateyrarbryggju og síðan þvert yfir Oddann. Þessi stærð á snjóflóðum var staðfest af þrem stórum sjóbörðum steinum sem lágu á Sandinum framan við efstu hús við Hafnarstræti. Stærð þeirra tel eg hafi verið rúmir 2m á kant og þeir þannig um 8-10 rúmmetrar og ættu því að vega um 60-70 tonn hver. Þeir voru greinilega ættaðir úr Skollahvilft. Þeir ættu að vera þarna enn sýnilegir hafi þeir ekki verið grafnir í jörðu í sambandi við aðrar uppfylllingar.

Skollahvilftin er mikil snjóakista. Ekki safnast þar aðeins miklar hengjur á fjallsbrúnirnar í öllum norðlægum áttum, heldur tekur sjálf hvilftin við miklu magni af snjó. Mikið leysingavatn berst því fram úr hvilftinni og niður á Hrygginn. Þessi lækur fellur í fossi fram af Litlakletti og hefir grafið sér djúpan farveg langan veg niður Hrygginn þar sem hann hefir nú nýlega stíflast af stórum steini sem breytir stefnu hans nú austur þar sem hann sameinast Sólvallalæknum. Saman hafa lækirnir svo grafið undirstöðurnar undan vegbrúnni sem nú hangir í lausu lofti. Áður rann lækurinn úr Skollahvilft niður Hrygginn og milli húsa á Sólbakka og væri auðvelt að koma honum þangað aftur.

Forsagan

Ástæða slyssins var sú að Flateyringar höfðu byggt raðhús þvert fyrir snjóflóðarennslið úr Skollahvilft. Þetta hafði augljóslega verið byggt með samþykki Flateyringa sem eigenda húsanna og þeirra stjórnvalda sem um þetta áttu að fjalla. Ástæðulaust er að rekja hverjir það voru sem að þeirri ákvörðun stóðu, en þetta voru slæm mistök. Snjóflóðið féll um nótt. Ísfirsk björgunarsveit komst þó um nóttina í gegn um göngin undir Breiðadalsheiði en þar sem Selabólsurðin var lokuð vegna skriðufalla varð björgunarsveitin að fara sjóleiðina frá Holti til Flateyrar, eða þvert yfir fjörðinn.

Voru nú kvaddir til verkfræðingar frá VST og einnig norskir kunnáttumenn frá NGI sem gerðu tillögur um uppbyggingu og nýja varnargarða neðan Eyrarfjalls, en þaðan hafa aldrei fallið nein snjóflóð á Flateyri. Þegar tillögurnar lágu fyrir hélt Stefán Thors fund í Reykjavík til samþykktar á þeim fyrir hönd stjórnvalda og voru tillögurnar samþykktar þar. Engar aðrar tillögur voru til umræðu og umræður ekki leyfðar. Þetta er það vandamál sem enn blasir við. Snjóflóðagarðarnir voru byggðir á landi þar sem engin snjóflóð falla. Þetta er kallað ókunnugleiki á staðháttum og eru slæm vinnubrögð. Það er enginn möguleiki að neita þessu og breytir engu þótt reynt sé.

Á dagatali Önfirðingafélagsins má sjá skekkjuna á varnargarðinum neðan Skollahvilftar. Hann er staðsettur miðað við að unnt sé að stöðva snjóflóð úr Skollahvilft sem er einfaldlega rangt. Myndin sýnir að öll snjóflóð eiga greiða leið niður í bátahöfnina þar sem þau geta hæglega valdið miklum usla eftir að þau dreifa úr sér á uppfyllingunni á Sandinum. Þetta verður að lagfæra.

Snjóflóðavarnir úr Skollahvilft

Öll snjóflóð úr Skollahvilft sameinast milli tveggja hjalla, sem nefnast Ytri-Hjalli og Innri-Hjalli. Snjóflóðavarnir þarna byggjast á því að gerðir séu varnargarðar neðan beggja þessarra hjalla og að snjóflóðum sé beint til sjávar milli þeirra. Meðan þetta er ógert er stöðug hætta á ferðum. Það verður að framlengja lækjarfarveginn þannig að hann verði ráðandi við stýringu flóðanna og láta hann síðan falla í sjó austar í Bótinni. Með þessu móti má fá fulla stýringu á öllum snjóflóðum úr Skollahvilft. Menn mega ekki vera með neinn tepruskap við þetta einfalda verk. Ein stór grafa myndi ljúka þessu verki á nokkrum vikum.

Veður fara nú ört versnandi og því ber að mæta breyttum aðstæðum og gera ráð fyrir meiri snjóalögum í giljunum ofan Flateyrar með stærri snjóflóðum en menn eiga að venjast á þessum stöðum. Til þess eru vítin að varast þau.

Faðir minn, f. 1920 ritaði margar greinar í Mbl. um snjóflóðavarnir á æskustöðvum sínum, en hann var frá Sólbakka….

Posted by Ragnar Önundarson on Fimmtudagur, 16. janúar 2020