Varar eindregið við því að hætta skimun, slíkt væri pólitísk ákvörðun

Þórólfur sóttvarnalæknir Guðnason. / Lögreglan.

Á næstu dögum kemur út bók eftir Björn Inga Hrafnsson, ritstjóra Viljans, um Ísland og COVID-19, þar sem skyggnst er á bak við tjöldin í viðbrögðum hér á landi við heimsfaraldrinum sem kom upp í Kína fyrir áramótin síðustu og hefur sett allt á hliðina. Viljinn birtir hér stutt brot úr einum kafla bókarinnar og mun gera slíkt kl. 16 næstu daga:

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir það sitt mat að skimanir hafi virkað vel sem varúðarráðstöfun, auk sem þær hafi gefið okkur mikilsverðar upplýsingar. Hann gefur því ekki mikið fyrir rök þeirra sem vilja opna landið til fulls og sleppa öllum skimunum. Meðal þeirra sem talað hafa á þeim nótum eru Bryndis Sigurðardóttir smitsjúkdómalæknir, Sigurður Guðmundsson faðir hennar og fv. landlæknir og Ragnar Freyr Ingvarsson yfirlæknir á COVID-19 göngudeild Landspítalans.

„Þetta fyrirkomulag okkar er að virka. Það fór hrollur um marga þegar ég sagði í minnisblaði til ráðherra að við þyrftum sennilega að gera þetta í að minnsta kosti sex mánuði, í einhverju formi. Ég held að við séum að gera þetta núna eins markvisst og minnst íþyngjandi og mögulegt er. Það er tilgangurinn með því að ná í þessar upplýsingar. Ég held að við þurfum að gera þetta í marga mánuði í viðbót. Ef menn hætta þessu þá verða þeir að gera það bara á pólitískum forsendum. Ég mun ekki mæla með slíku,“ segir Þórólfur um það leyti sem lokið var við gerð bókarinnar.

„Ef við höldum okkur við skimun og kvaðir um sóttkví frá hættusvæðum held ég að við getum forðað því að það verði sérstakur faraldur næsta vetur. Við verðum bara að halda þetta út svona. Stærsta áhættan er að við gefumst upp, látum undan þrýstingi og hættum þessum skimunum, hugum ekki nægilega vel að einstaklingsbundnum sóttvörnum, að við förum að slaka á:

BIH [Björn Ingi Hrafnsson]: Hvað ætlar þú þá að segja ef pólitíkin segir á næstu vikum: „Þórólfur hættum þessum skimunum, þetta er bara dýrt og svo mikið vesen?“ Þú getur varla með faglegum rökum sagt já við því, miðað við það sem þú ert að segja?

ÞG [Þórólfur Guðnason]: Nei, ég myndi segja: „Heyrið, þið ráðið þessu, það eru þið sem borgið þetta en ég vara eindregið við þessu, ég held að afleiðingin geti orðið sú, þótt það gæti tekið einhvern tíma, að við fáum allt í einu faraldur með einhverjum alvarlegum afleiðingum.“ Það held ég að geti gerst ef við skimum ekki og vitum ekki almennilega hvað við eigum að gera og tökum á þessu strax í byrjun. Vegna þess sem við vitum nú um smit frá einkennalausu fólki getur þetta farið að grassera í samfélaginu án þess að nokkur hafi hugmynd um það. Þangað til allt í einu að þetta kemur inn á spítalann, kemur inn á hjúkrunarheimilin og þá fer fólk að fara mjög illa út úr þessari sýkingu. Þá væri þetta orðið víðtækt og við að elta í stað þess að eiga frumkvæðið og þá gætum við lent í því sama og Svíar og það get ég bara ekki hugsað mér. Þá myndum við ekkert ráða við þetta.

BIH: En með því að skima og með því að passa okkur þá getum við haldið þessu niðri?

ÞG: Já, ég held það.