Elvar Eymundsson, varaþingmaður Miðflokksins í Suðurkjördæmi, telur að erfitt verði fyrir almenning og samstarfsfólk að umbera fjórmenningana úr Miðflokknum sem sátu á umtöluðum fundi á Klausturbar og létu óviðurkvæmileg ummæli falla um fjölmarga nafngreinda einstaklinga.
„Þingmenn Miðflokksins (ekki allir) hafa gert sig seka um mikla glópsku sem erfitt er að fyrirgefa þó að ég telji samt að það sé rétt að gera í fyllingu tímans,“ segir Elvar á fésbókarsíðu sinni í dag.
„Þrátt fyrir það verður mjög erfitt fyrir almenning og samstarfsfólk, að umbera þau eftir þetta í því starfi sem þau sinna. Og þeim verður líklega ekki mikið úr verki, þurfandi endalaust að verja afglöp sín og bera þau á herðum sér um langa hríð.
Ég legg því til að þau taki hlé frá þingstörfum til vors hið minnsta. Á meðan hugi þau að flokksstarfinu og eigin málum og stöðu og veiti varamönnum sínum þá aðstoð sem þau þurfa til góðra verka. Ekki er líklegt að skynsamlegt sé fyrir þau, sum að minnsta kosti, að snúa aftur,“ segir hann.
Elvar vitnar þó til ömmu sinnar sem sagði: ,,allir eiga leiðrétting orða sinna, nema presturinn í stólnum í þriðja sinn”.
Hann lætur þess jafnframt getið, að hann eigi ekki hagsmuna að gæta í málinu. „Þess ber að geta að ég kem ekki til með að græða þingsæti ef þetta verður, því að minn aðalmaður var ekki með í þessu og var að vinna við fjárlögin þessa nótt, sem betur fer.“
Aðalmaðurinn sem þarna er vísað til, er Birgir Þórarinsson þingmaður.