Varla annað hægt en dást að þreki og seiglu Theresu May

Össur Skarphéðinsson fv. utanríkisráðherra.

Eftir Össur Skarphéðinsson:

Varla er hægt annað en dást að þreki og seiglu Theresu May. Hún kemur úr vonlausri samningaferð um Evrópu, tekst þegar í stað á við vantraust á einum degi, og sigrar – þó vissulega komi hún haltrandi út. Ekki er liðinn dagur þegar hún er mætt í vonlítinn leiðangur í Brussel.

Frá sjónarhóli þjóðarhagsmuna var það hins vegar “det gale vanvid” að efna til leiðtogakjörs á svo viðkvæmri stundu. Það sýnir að Brexit-sinnar hafa orðið viðskila við veruleikann.

Vissulega má segja að May hafi átt sigur vísan í vantraustinu. Meirihluti þingmanna Íhaldsflokksins kaus á sínum tíma gegn Brexit, eða vilja mjúka lendingu, og gátu ekki hugsað sér atburðarás þar sem talsverðar líkur voru á að annar hvor forystumanna hinnar hörðu Brexit-fylkingar, Boris Johnson fyrrum utanríkisráðherra, eða Dominic Raab sem sagði af sér sem Brexit-ráðherra, hefðu á endanum orðið leiðtogar.

Í gríðarlegri kastþröng má líka segja að May hafi kippt fótum undan andstæðingum í þingflokknum með því örþrifaráði að gera uppskátt að hún hyggist ekki leiða flokkinn í kosningum eftir þrjú ár. Af umhyggju fyrir þingsætum sínum gátu fæstir hugsað sér það.

Breski forsætisráðherrann, Theresa May.

Þetta loforð tryggði henni því stærri sigur en ella – en réði tæpast úrslitum.

Um leið má segja að hún hafi endanlega gengið frá leiðtogadraumum helsta andstæðings síns, Boris Johnson. Hann er litríkur pópúlisti en meingallaður stjórnmálamaður. Í dag eru meiri líkur á að aðildarsinninn Jo, bróðir hans, verði fremur leiðtogi en hann – án þess að því sé endilega spáð hér.

Með 117 þingmenn á móti stefnu sinni er hins vegar mjög þungt fyrir hana að ná fram nokkrum breytingum í Brussel.

Mér þótti May aldrei sérlega geðfelldur stjórnmálamaður, og fannst hún reka vonda stefnu sem innanríkisráðherra. Hvorki ég né aðrir geta þó tekið frá henni það sem hún sannarlega á skilið: Respekt fyrir ótrúlegu úthaldi og elju. Það er ekki uppgjöf í þessari konu.

Tekið af Facebook-síðu Össurar og birt með góðfúslegu leyfi.