„Efasemdir um hlýnun jarðarinnar af mannavöldum er miklu minna vandamál, en ofstækið í hina áttina. Sérfræðingar í loftslagsmálum eiga nú í vök að verjast gagnvart hótunum og ógnunum frá fólki sem finnst þeir ekki vera nægilega róttækir. Þetta eru dómsdagsspámenn og öfgamenn,“ er haft eftir Petteri Taalas, yfirmanni Alþjóða veðurfræðistofnunarinnar (WMO), sem ávítaði talsmenn aðgerða í loftslagsmálum, á fordæmalausan hátt, í viðtali í finnska tímaritinu Talouselämä. Frá þessu greinir The Epoch Times.
Taalas kallar eftir yfirvegun í umræðunni um loftslagsmál og að fólk haldi sig við rök og staðreyndir – hann hafnar öllum spám um að endalokin séu í nánd. „Við ættum að halda ró okkar og velta fyrir okkur mögulegum úrræðum við vandanum,“ á Taalas jafnframt að hafa sagt í viðtalinu. „Endalokin eru ekki framundan. Heimurinn á eftir að taka einhverjum breytingum og sumstaðar þarf að mæta áskorunum, en mannfólkið er fært um að aðlagast og standa af sér ýmsa erfiðleika.“
Falsspámenn boða heimsendi
Hann gagnrýndi þróun umræðunnar í þá átt að fólk ætti að hætta að eignast börn, og öfgakenndan málflutning stjórnmálamanna á borð við bandaríska sósíaldemókratann Alexandriu Ocasio-Cortez, sem hefur orðið andlit ofstækisfullrar hreyfingar aðgerðasinna í loftslagsmálum. Hún hefur t.a.m. endurtekið sagt að heimurinn farist eftir 12 ár, ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða í loftslagsmálum.
Meira að segja einn meðstofnandi Greenpeace-samtakanna, Patrick Moore, kallaði yfirlýsingu Taalas, „reiðarslag fyrir málflutning róttæklinga í loftslagsmálum“. Hann skrifaði á twitter: „Veðurfræðingarnir eru alvöru vísindamenn og líkast til orðnir uppgefnir á dómsdagsspámönnunum Gretu [Thunberg], [Michael] Mann, [Al ]Gore og AOC [Alexandriu Ocasio-Cortez]. Gott hjá honum.“
Spár túlkaðar eins og bókstafstrú
Taalas sagði að róttæklingar í loftslagsmálum hafi komist upp með að túlka gögn og skýrslur Alþjóðaráðsins um loftslagsmál (IPCC), eins og trúarofstækismenn túlka Biblíuna. Þau tíni úr þeim atriði sem falli að öfgakenndum málflutningi þeirra. Upplýsingarnar um síðustu 12 ár heimsins séu þannig tekin og slitin úr samhengi. Einnig hafi 105 af 108 módelum, sem IPCC notast við til að gera spár og útreikninga, ofreiknað hækkanir á hitastigi á árunum 1998-2014, og séu því langt frá því að vera nógu nákvæm til að spá þeim hækkunum á hitastigi sem haldið er fram að verði næstu árin og áratugina.