Vera kann að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu sæstrengs

Þórdís Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra atvinnu- og nýsköpunarmála.

Innleiðing þriðja orkupakkans leggur engar skyldur á herðar Íslandi að samþykkja hugsanlegan sæstreng. Enginn vafi leikur á því að Ísland ákveður hvaða innlendi aðili veitir leyfi fyrir slíkum streng.

Þetta kemur í upplýsingapakka sem atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur tekið saman svör við mörgum af þeim helstu spurningum sem uppi hafa verið um þriðja orkupakka Evrópusambandsins og birtur hefur verið á heimasíðu ráðuneytisins.

Þar segir jafnframt að engar millilandatengingar fari á verkefnalista ESB (PCI-lista) nema með samþykki viðkomandi stjórnvalda.

„Þriðji orkupakkinn kveður á um sameiginlega áætlun ESB um uppbyggingu raforkukerfa en sérstaklega er tekið fram í þeim reglum að áætlunin sé óbindandi fyrir aðildarríkin. Nefna má að í yfirlýsingu norskra stjórnvalda í tengslum við innleiðingu þriðja orkupakkans er skýrt tekið fram að ákvörðun um lagningu nýrra sæstrengja sé ávallt á forræði norskra stjórnvalda. Hið sama gildir um Ísland. Því er óhugsandi að sæstrengur yrði lagður hingað gegn vilja Íslendinga.

Því hefur verið velt upp, að þó að fjórfrelsisreglur EES-samningsins komi ekki í veg fyrir að strengur á íslensku forráðasvæði og önnur mannvirki sem honum tengjast séu háð leyfum sem byggja á lögmætum sjónarmiðum, þá geri þær mögulega að verkum að óheimilt sé að leggja fortakslaust bann við lagningu strengs. Sé það raunin er sú staða uppi nú þegar, hefur verið það frá því að EES-samningurinn var samþykktur fyrir um aldarfjórðungi, og er með öllu ótengt þriðja orkupakkanum.“

Spurningar og svör um þriðja orkupakka ESB