Verðbólgan er komin á flug: Ekki mælst meiri í fimm ár

Vísitala neysluverðs miðuð við verðlag í nóvember 2018 er 460,5 stig (maí 1988=100) og hækkar um 0,24% frá fyrra mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis er 393,5 stig og hækkar um 0,18% frá október 2018.

Verðbólgan er þannig komin á töluvert skrið. Síðastliðna tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,3% en vísitalan án húsnæðis hefur hækkað um 2,4%.

Verðbólga hér á landi hefur ekki mælst hærri í fimm ár. Möguleg áhrif af því að ekkert varð úr yfirtöku Icelandair á Wow koma ekki inn í þessar tölur og því útlit fyrir að horfur geti enn versnað verulega á næstunni.

Verð á nýjum bílum hækkaði um 1,6% (áhrif á vísitöluna 0,14%). Flugfargjöld til útlanda lækkuðu um 13,2% (-0,16%).  

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í nóvember 2018, sem er 460,5 stig, gildir til verðtryggingar í janúar 2019. Vísitala fyrir eldri fjárskuldbindingar, sem breytast eftir lánskjaravísitölu, er 9.093 stig fyrir janúar 2019, að því er kemur frá í tölum frá Hagstofunni.

Skuldir heimilanna hækka um 4 milljarða

Vilhjálmur Birgisson, varaforseti ASÍ, segir að verðbólguþróunin nú þýði að verðtryggðarskuldir heimilanna hafi hækkað um tæpa 4 milljarða á einum mánuði.

„Á síðustu tveimur mánuðum hefur vísitala neysluverðs hækkað um 0,81% sem þýðir að á 61 degi hafa verðtryggðarskuldir heimilanna hækkað um 12,4 milljarða! 

Ætla stjórnvöld og þingheimur enn og aftur að horfa aðgerðalaus á verðtrygginguna níðast á saklausum almenningi og maður spyr sig, ætla stjórnvöld virkilega að fórna íslenskum heimilum á blóðugu altari verðtryggingar eins og gerðist í hruninu?“ spyr hann.