„Verðum að fylgja leiðsögn vísindanna“

Umhverfisráðherra á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ávarpaði í dag Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd. Hann þakkaði IPCC fyrir skýrslu sína um loftslagsmál og lagði áherslu á að Ísland áliti hana mikilvægt leiðarljós í verkefninu sem fram undan væri. Skýrslan hefði gefið okkur enn eitt viðvörunarkallið. „En ég spyr: Hversu margar slíkar viðvaranir í viðbót þurfum við?“

Ráðherra lagði áherslu á að það að berjast gegn loftslagsbreytingum væri að berjast fyrir mannréttindum. „Við verðum að ganga sameinuð til verka gegn loftslagsvandanum af ástríðu, mannúð og ábyrgð,“ sagði hann.

Í fréttatilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram, að Guðmundur Ingi hafi lagt í máli sínu áherslu á að bylting í orkuskiptum í samgöngum væri fram undan og að Ísland stefndi á kolefnishlutleysi árið 2040. „Það er metnaðarfullt markmið en nauðsynlegt. Heimsbyggðin þarf að ná kolefnishlutleysi á seinni hluta aldarinnar. Það þýðir að sum okkar verða að ná því markmiði fyrr. Þróuð ríki eiga að vera í fararbroddi við að ná kolefnishlutleysi,“ sagði hann. 

Ráðherra lagði áherslu á að ríki heims væru ekki nægjanlega metnaðarfull í aðgerðum fyrir Jörðina og fyrir komandi kynslóðir. Nauðsynlegt væri að þau gerðu betur. Auk þess þyrftum við að breyta hugsunarhætti okkar, gjörðum og neyslumynstri. 

Okkar býður dökk framtíð

„Okkar býður dökk framtíð ef við fylgjum ekki leiðsögn vísindanna og Parísarsamningsins. Norðurslóðir eins og við þekkjum þær í dag yrðu gjörbreyttar. Við erum hættulega nálægt því að hrinda af stað óafturkræfri bráðnun Grænlandsjökuls. Súrnun hafsins er sérlega hröð í norðurhöfum, þar á meðal í hafinu við Ísland. Losun kolefnis út í andrúmsloftið er alvarleg ógn við lífríki hafsins,“ sagði hann.

Guðmundur Ingi tók í ávarpi sínu dæmi af Hjartafelli í Þjórsárverum, inni á miðhálendi Íslands, sem tveir skriðjöklar hefðu eitt sinn umlukið og þannig myndað hjarta. Með bráðnun jöklanna væri hjartað nú að hverfa. Mikilvægt væri að bregðast hratt við loftslagsbreytingum og það af öllu hjarta. 

Ráðherra hefur verið á Loftslagsfundinum síðan um helgina og meðal annars verið í pallborði á vegum Alþjóðaorkumálastofnunarinnar um orkuþörf í heiminum og endurnýjanlega orkugjafa ásamt umhverfisráðherra Spánar, auk þess að vera í pallborði um plastmengun ásamt aðstoðarumhverfisráðherra Bretlands og fleirum. 

Í gær tók hann þátt í svokölluðum Talanoa-samræðum ráðherra en þá var þeim ríflega 130 ráðherrum sem staddir eru á ráðstefnunni skipt upp í yfir 20 minni hópa ásamt fulltrúum ríkja, félagasamtaka og fleiri. Að auki átti Guðmundur Ingi í gær tvíhliða fund með Svenju Schulze, umhverfisráðherra Þýskalands. Þau ræddu meðal annars um áætlanir ríkjanna um orkuskipti og samdrátt í losun, verkefni í niðurdælingu koldíoxíðs í basalt á Íslandi og í Þýskalandi og nauðsyn á frekari aðgerðum.

Í dag tók Guðmundur Ingi þátt í þremur viðburðum auk þess að flytja ávarpið fyrir Íslands hönd í aðalsal ráðstefnunnar. 

Ávarp Íslands (pdf)

Facebookupptaka af ávarpi umhverfis- og auðlindaráðherra á COP24