Verður forysta Framsóknar undir á miðstjórnarfundi?

Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins.

Svo gæti farið að forysta Framsóknarflokksins verði undir á miðstjórnarfundi sem fram fer um helgina þegar kemur að innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður flokksins, vill afgreiða pakkann með fyrirvara, en fyrir fundinum liggur tillaga sem vel hefur verið tekið, þar sem innleiðingu er einfaldlega hafnað.

Í tillögunni segir:

„Framsóknarflokkurinn hafnar innleiðingu þriðja orkupakkans
Orkuauðlindin er ein af mikilvægustu forsendum velmegunar í landinu. Framsóknarflokkurinn áréttar mikilvægi þess að allar ákvarðanir í orkumálum verði í höndum íslendinga og minnir á að stjórnarskrá Íslands leyfir ekki framsal ríkisvalds til erlendra stofnana. Aðstæður Íslands í orkumálum eru gjörólíkar þeim sem liggja til grundvallar orkulöggjöf ESB og því er óskynsamlegt að innleiða það regluverk hér. Auk þess hefur Ísland enga tengingu við orkumarkað ESB og Framsóknarflokkurinn hefur ályktað að slík tenging þjóni ekki hagsmunum landsmanna. Því ber að að hafna innleiðingu þriðja orkupakkans og semja við ESB um að Ísland verði undanþegið orkulöggjöf ESB.“

Það eru þeir Jón Ingi Gíslason, Frosti Sigurjónsson, Kristinn Dagur Gissurarson og Björn Harðarsson sem eru höfundar tillögunnar. Ekki var leitað til fleiri enda mun fundurinn í heild fjalla um textann.

EES-samningurinn mikilvægasti alþjóðasamningur okkar

Sigurður Ingi hélt ræðu við upphafi miðstjórnarfundarins og lýsti því að hann vilji klára þriðja orkupakkann með fyrirvara. Hann yrði um að Ísland undirgangist ekki ákvæði um sameiginlegan orkumarkað Evrópu fyrr en og ef Íslendingar ákveddu einhvern tímann í framtíðinni að þeir vildu tengjast Evrópu með sæstreng.

„Ríkisstjórnin vinnur að því nú hvernig við getum nálgast þetta verkefni en staðreyndin er sú að innleiðing á þriðja orkupakkanum er innan tveggja stoða kerfis EES-samningsins og EES-samningurinn er okkur sá mikilvægasti alþjóðlegi samningur sem við höfum gert,“ sagði hann.

Þess má geta, að því hefur verið haldið fram að aðild Íslands að EES geti verið í hættu, verði orkupakkinn ekki innleiddur.