Verpt upplýsingaflæði samfélagsmiðla truflar lýðræðið

Myndgreining á samfélagsmiðlaneti. Í stað þess að upplýsingar dreifist jafnt, myndast oft hópar sem skarast ekki og síaðar skoðanablöðrur einstaklinga með lík viðhorf. Mynd/Wikimedia Commons

Rannsókn sýnir að hægt er að stýra flæði upplýsinga á milli einstaklinga á neti samfélagsmiðla, til að skekkja tilfinninguna fyrir því hvernig aðrir muni kjósa – sem geti haft áhrif á lýðræðislega ákvarðanatöku. Frá þessu greindi vísindatímaritið Nature.

Lýðræðið þarfnast upplýstra kjósenda. Sumar tækniframfarir hafa breytt því hvernig upplýsingar berast einstaklingum í samfélaginu, með alvarlegum afleiðingum fyrir lýðræðið. Vísindamenn notuðu tilraunir og reiknilíkön til að uppgötva áður óséðar hindranir við lýðræðislega ákvarðanatöku. Þegar samfélagsmiðlar verða aðal veita upplýsinga, munu mynstur og tengingar manna á milli innan miðlanna, hafa áhrif á það hvernig þeir halda að aðrir muni kjósa. Þessi áhrif skipta máli, af því að fólk aðlagar sjónarhorn sín og kosningastrategíu samkvæmt því, annað hvort vegna félagslegrar áhrifagirni eða á grundvelli strategíu.

Skoðanablöðrur byrgja sýn á heildarmyndina

Internetið hefur þurrkað út landfræðilegar hindranir og gert fólki kleift að eiga samskipti sín á milli í rauntíma, um sameiginlega hagsmuni sína. Samfélagsmiðlar eru byrjaðir að keppa við og jafnvel koma í stað upplýsinga og samræðna sem eiga sér stað innan landsvæða á prenti, í hljóðvarpi eða á mynd. Þannig verður til fljótfærnislegur hræringur af persónulegri orðræðu í sýndarheimi. Í stað þess að víkka sjóndeildarhring sinn, hverfist fólk um upplýsingar sem falla að skoðunum þeirra, og sækir í samskipti við þá sem eru með svipaðar skoðanir það sjálft. Ákveðin mengi af einstaklingum innan samfélagsmiðla geta því breyst í síaðar skoðanablöðrur, þar sem fólk sér aðeins algóriþmískt, sérsniðið brot af stærra samhengi upplýsinga og umræðna. Síaðar skoðanablöðrur herða gjarnan fólk í afstöðu sinni, gera afstöðuna öfgakenndari og drífa áfram svart/hvítan hugsunarhátt.

Tilraunin var gerð með þrátefli hópa vegna umdeildrar ákvörðunar. Vísindamennirnir þróuðu kosningalíkan byggt á leikjafræði – sem var notað sem rammi til að greina strategíska hegðun. Líkanið var prófað á 2.520 einstaklingum sem skipt var upp í 12 hópa. Líkanið og tilraunin voru með sömu reglurnar: hver einstaklingur var með óskaniðurstöðu, en allir einstaklingarnir vonuðust eftir einróma niðurstöðu og jafnvel annarri en sinni eiginóskaniðurstöðu, frekar en að engin niðurstaða fengist.

Niðurstaða í þráteflisákvarðanatöku skekkist

Dæmi um þrátefli var t.d. þegar ekki var hægt að koma sér saman um fjárhagsáætlun Bandaríkjanna, sem endaði með lokun alríkisvaldsins. Til að forðast þrátefli, þá gæti verið skynsamlegt að kjósa gegn eigin óskastöðu, sérstaklega þegar hættan á þrátefli eykst og líkurnar á óskastöðunni dvína. Til að forðast þrátefli, þarf upplýsingar um hvernig aðrir muni kjósa. Rannsakendur sáu fyrir sér að þær upplýsingar fengjust á samfélagsmiðlum. Á miðli þar sem ekkert hefur verið átt við upplýsingaflæðið, fá flestir nokkuð nákvæma mynd af því, í gegnum tengsl sín, hvernig aðrir muni kjósa. Vísindamennirnir komust að því, að jafnvel þó að fjölda tengsla sem hver einstaklingur hefur, sé ekki breytt, þá er hægt að breyta tengslunum þannig, að sumir einstaklingar komist að rangri niðurstöðu um óskaniðurstöðu heildarinnar. Þesskonar breytingar geta jafnvel haft áhrif á framvindu og niðurstöðu kosninga. Í þessu ferli, sem höfundar skýrslunnar kalla verpingu upplýsinga (e. information gerrymandering), þá er samfélagsmiðlaneti stillt þannig upp að einstaklingar í tilteknum hópi eyða áhrifum sínum á einstaklinga með svipaðar skoðanir.

Í stuttu máli geti þetta haft áhrif á hugmyndina um hlutfallslegt umboð hópa í lýðræðisríkjum, einstaklingar sem voru áður bundnir við landsvæði en virðast nú dreifðir og bundnir við upplýsingar. Þrátefli eru bæði líkleg og óæskileg. Það er óljóst hvort að þessar ályktanir eigi við í stærri ákvarðanatökum eins og þingkosningum – þar sem þrátefli eru ýmist sjaldgæf eða útilokuð. En, ályktanirnar gætu vel átt við í öðrum ákvörðunum hópa, t.a.m. í stjórnum, dómnefndum og í þingsölum. Vísbendingar hafa fundist um verpingu upplýsingaflæðis í kosningamynstri í Bandaríkjunum, á meðal þingmanna Evrópuþingsins, og í kosningagögnum til alríkisins í Bandaríkjunum.

Fáir geta stýrt ákvarðanatöku heildar

Niðurstöðurnar þykja sláandi, þar sem að áður náði fólk sér í upplýsingar frá dreifðum útgefendum þeirra eins og dagblöðum og sjónvarpsstöðvum, og í „kjötheimum“ frá tengslaneti einstaklinga sem það átti samskipti við. En í dag eru samfélagsmiðlar í einokunar- eða fákeppnisstöðu um að fá að hanna dýnamíkina og algóriþmana sem stýra tengslum, miðlun og framsetningu upplýsinga eftir því hvernig einstaklingarnir hafa áður valið upplýsingar eða sýnt svörun. Vörpun upplýsinganna gæti bæði verið stýrt í ákveðnum pólitískum tilgangi, eða hafa orðið til sem afleiðing af því að sérsníða virkni miðlanna að vali og smekk notenda.

Eins og er gildir ekki mikið af reglum um starfsemi samfélagsmiðla, eða kvöð um gagnsæi varðandi þeirra starfshætti. Eldri tækni sem getur haft áhrif á lýðræðislega ferla, eins og hljóð- og sjónvarp, þarf þegar að búa við reglur og eftirlit. Kannski er kominn tími til að samfélagsmiðlarnir fái samskonar ramma.