Þriggja daga árlega öryggisráðstefnan í München hófst föstudaginn 15. febrúar og lýkur í dag. Angela Merkel Þýskalandskanslari flutti ræðu á ráðstefnunni í gær og sagði meðal annars:
„Við þörfnumst NATO, það er akkeri stöðugleika í ólgusjó. Við þörfnumst þess sem samfélags um sameiginleg gildi. Við ættum aldrei að gleyma að NATO var ekki aðeins stofnað sem hernaðarbandalag heldur sem bandalag þjóða með sameiginleg gildi; sem hafa sömu afstöðu til mannréttinda og lýðræðis; þar eru sameiginleg leiðarljós okkar allra.“
Í ræðu sinni vék Merkel nokkrum sinnum beint að Bandaríkjunum. Hún velti fyrir sér skynsemi þess að hverfa hratt með bandarískan herafla frá Sýrlandi og Afganistan og hvað fælist í þeirri afstöðu að þýskir bílaútflytjendur væru ógn við þjóðaröryggi Bandaríkjanna. Hún benti sérstaklega á að stærsta bílasmiðja BMW væri í Bandaríkjunum en ekki Bæjaralandi.
Í frétt DW af ræðu Merkel segir að ráðstefnugestir hafi hvað eftir annað risið úr sætum sínum og klappað henni lof í lófa. Ivanka Trump og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, hefðu þó setið sem fastast og ekki látið hrífast.
Varaforsetinn gagnrýndi Þjóðverja, Frakka og Breta
Mike Pence varaforseti flutti ræðu sína skömmu á eftir Angelu Merkel. Hann hvatti til alþjóðasamvinnu en gagnrýndi Þjóðverja, Frakka og Breta fyrir að fara ekki að fordæmi Bandaríkjamanna og segja sig frá kjarnorkusamningnum við Íran,
Pence fór til Auschwitz föstudaginn 15. febrúar og tengdi heimsókn sína þangað við gyðingahatur stjórnvalda í Íran. Hatursræður íranskra ráðamanna í garð gyðinga yrði að taka alvarlega.
Það væri tímabært að svara þessum ófögnuði. Evrópskir bandamenn Bandaríkjamanna ættu ekki grafa undan bandarískum refsiaðgerðum gegn þessari „morðóðu“ byltingarstjórn í Íran. Evrópuríkin ættu að segja sig frá kjarnorkusamningnum við Íran og slást í lið með þeim sem vildu beita efnahagslegum og stjórnmálalegum þrýstingi til að íranska þjóðin, íbúar á svæðinu öllu og heimsbyggðin fengi þann frið og öryggi sem hún ætti skilið.
Pence sagði að Bandaríkjastjórn legðist af þunga gegn tilraunum til að kljúfa NATO með „pólitískum afskiptum og notkun orkugjafa“. Hann hrósaði þeim evrópsku ríkisstjórnum sem lýst hefðu andstöðu við Nord Stream 2 gasleiðsluna. „Við hvetjum aðra til að gera það sama,“ sagði Pence.
Af vardberg.is, birt með leyfi.