Viðurkennum og umberum viðhorf sem okkur líkar ekki við

Einar Gautur Steingrímsson lögmaður.

Upphaflega lutu mannréttindi fyrst og fremst að því að njóta trúfrelsis og tjáningarfrelsis. Þannig var stjórnarskráin frá 1874 og stjórnarskrár margra evrópuríkja á þeim tíma. Jafnrétti gekk út á afnám forréttinda eins og aðalsmanna. Slíkt ákvæði var einnig í stjórnarskránni frá 1874. Að miklu leyti gengu mannréttindi út á að vernda menn gegn ríkisvaldinu og fyrir að þurfa að aðhyllast ríkjandi gildi.

Þetta skrifar Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður, en hann telur viðhorf nútímans vera orðin mjög varasöm og fjallar um það á fésbókarsíðu sinni.

„Nú eru ríkjandi gildi orðin trúarbrögð. Menn eru reknir úr vinnu fyrir villutrú eins og kennarinn í HR og „rangar“ skoðanir eru brot á mannréttindum þeirra sem eru ósammála.

Nú þarf að fara aftur til upphafsins og viðurkenna fjölbreytileika mannlífsins, ekki bara á sviði kynvitundar, kynhneigðar, fötlunar o.fl. Líka í lífsviðhorfum. Alveg sérstaklega þau lífsviðhorf sem okkur líkar ekki við.

Lífsviðhorf fjöldans eru ekki svo ómerkileg að þau þoli ekki gagnrýni eða að eitthvað annað sé sagt. Nú þarf að endurnýja rétt manna til skoðana og skoðanaskipta. Honum hefur hrakað mikið undanfarið,“ segir Einar.