Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hyggst leggja fram eftirtaldar spurningar á fundi borgarráðs í dag, um hagsmuni borgarbúa varðandi ráðstöfun Reykjavíkurborgar á byggingarlóðinni þar sem Ríkisútvarpið (RÚV) er til húsa.
1. Í skýrlsu Ríkisendurskoðanda til Alþingis kemur fram að í janúar 2015 gerðu RÚV og Reykjavíkurborg með sér samkomulag um skipulagssamkeppni á lóð RÚV í Efstaleiti, nánar tiltekið um lóðaréttindi og byggingarétt. Samkvæmt samkomulaginu fékk Reykjavíkurborg í sinn hlut 20% af samþykktu byggingarmagni. Af hverju gerði Reykjavíkurborg ekki kröfu um að RÚV tæki þátt í stofnkostnaði innviða til að gera lóðina byggingarhæfa?
2. Heildarsöluverðmæti byggingaréttar nam 1.966 m.kr og var kostnaður RÚV við að gera lóðina söluhæfa 495 m.kr. Hvað er átt við með því að gera lóðina söluhæfa þar sem borgin var þegar búin að taka á sig allan stofnkostnað innviða til að gera lóðina byggingarhæfa?
3. Hvers vegna var ekki fært til útgjalda hjá Reykjavíkurborg að framselja til RÚV þau verðmæti sem fólust í sölu á byggingarétti á lóð sem borgin hefði getað gengið eftir að yrði skilað?
4. Hvers vegna véfengdi Reykjavíkurborg ekki þann gjörning þegar lóðinni við Efstaleiti var skipt upp við stofnun RÚV þar sem ekki var leitað eftir samþykki borgarinnar?
5. Hvenær var tekin ákvörðun um að Reykjavíkurborg opnaði þjónustumiðstöð í útvarpshúsinu?
6. Hvenær var hún opnuð?
7. Hvað hefur Reykjavíkurborg greitt til RÚV frá upphafi leigusamnings til 1. febrúar 2020?
8. Hvað er húsnæðið stórt sem Reykjavíkurborg leigir af RÚV?
9. Hvernig var leigan ákvörðuð og hvert er leiguverð pr. fermeter?
10. Er ekki óeðlilegt að RÚV sem rekur stærstu fréttastofu landsins sé fjárhagslega háð Reykjavíkurborg með leigugreiðslur?