Vigdís upplifir fyrirhuguð veggjöld ríkisins sem „kjaftshögg“

Vigdís Hauksdóttir, oddviti borgarstjórnarflokks Miðflokksins.

„Kjaftshögg að heyra það á fundinum í morgun að ríkisstjórnin keppist við að uppfylla kosningaloforð borgarstjóra um borgarlínu og Miklubraut í stokk“, sagði Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur á facebook í kvöld. Tilefnið er að, Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra, ásamt fulltrúa Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, kynntu í morgun veggjöld á helstu stofnæðum höfuðborgarsvæðisins til að fjármagna samgönguframkvæmdir, þar með talda borgarlínu.

Sjálfstæðisflokkurinn fallinn frá grunnstefnunni?

„Fjármálaráðherra er Sjálfstæðismaður og í sama flokki eru allir bæjarstjórar sem að þessu „samkomulagi“ standa“, hélt Vigdís áfram, og bætti við að taktleysi Sjálfstæðisflokksins birtist þó mest í því að leggja á ný gjöld og skatta sem næmu 60 milljörðum á 15 árum, en þar vísaði hún í heimildir Ríkisútvarpsins skv. frétt Ríkisútvarpsins, því tölurnar hafa enn ekki verið gerðar opinberar.

„Er flokkurinn endanlega fallinn frá grunnstefnu sinni?“ spyr Vigdís og segir að lokum: „Ekki er gert ráð fyrir Sundabraut í þessari áætlun – það er líka kjaftshögg!“