Miðflokkurinn telur þær leiðir sem menntamálaráðherra, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, leggur til til ríkisstyrkjavæðingar fjölmiðla umdeildar, gagnslitlar og flóknar.
Það heyri til undantekninga að fyrirsvarsmenn einkarekinna fjölmiðla séu sáttir við útfærslu ráðherrans, segir í yfirlýsingu frá flokknum.
Þar segir jafnframt að rekstrarerfiðleikar einkarekinna fjölmiðla og erfið samkeppnisstaða þeirra gagnvart Ríkisútvarpinu hafi verið til umræðu árum saman. Miðflokkurinn vilji leggja til nýja og betri aðferð til að styðja við einkarekna miðla „með það að markmiði að draga hægt og rólega úr yfirburðarstöðu Ríkisútvarpsins á fjölmiðlamarkaði.“
Annars vegar fái almenningur fái að velja með hvaða hætti stuðningur skilar sér til einkarekinna fjölmiðla. Hins vegar verði horft til þess að styrkja innlenda dagskrárgerð í gegnum samkeppnissjóð sem verður fjármagnaður með auglýsingasölu hjá Ríkisútvarpinu.
Valfrelsi almennings skv. tillögunni:
Við skattskil hafi einstaklingar sjálfræði um til hvaða fjölmiðils þeir vilja að greiðslur þeirra til fjölmiðla, „útvarpsgjaldið“, renni.
- Áhrif af þessu kæmu fyrst fram árið 2021, eftir að skattgreiðendur hafa skilað skattskýrslum sínum, vorið 2020, fyrir árið 2019.
- Miðað er við að árið 2021 verði að hámarki 10% heildarupphæðar nefskattsins ráðstafað með þessum hætti, 20% árið 2022 og hlutfallið nái hámarki árið 2023 þegar 30% af útvarpsgjaldi verði að hámarki ráðstafað til einkarekinna miðla.
- Velji lægra hlutfall skattgreiðenda að ráðstafa gjaldinu til einkarekinna miðla en gert er ráð fyrir hér að ofan nýtur Ríkisútvarpið þess. Velji hærra hlutfall skattgreiðenda að ráðstafa gjaldinu til einkarekinna miðla en hámarkið gerir ráð fyrir þá skiptast tekjur hlutfallslega á einkarekna miðla þar til hámarksviðmiðinu er náð.
Samkeppnissjóður til stuðnings innlendri dagskrárgerð:
Helmingur af auglýsingasölu og tekjum af kostun hjá Ríkisútvarpinu renni í sjóð sem styðji við innlenda dagskrárgerð.
- Auðvelt verður að halda utan um þetta eftir að Ríkisútvarpið hefur stofnað dótturfélag sem heldur utan um auglýsingasölu og kostun.
- Með þessu næst fram markmið um að styðja með öflugum hætti við innlenda dagskrárgerð.
- Með þessari nálgun mætum við þeim áhyggjum sem lýst hefur verið af því að erfitt verði að ná til tiltekinna hópa ef Ríkisútvarpið verður tekið af auglýsingamarkaði. Þannig er einnig brugðist við athugasemdum um að fjármagn sem nú rennur til auglýsingakaupa hjá Ríkisútvarpinu kynni að leita til erlendra aðila en ekki til einkarekinna íslenskra fjölmiðla, verði Ríkisútvarpið tekið af auglýsingamarkaði.