Vilja rýmka notkun nagladekkja til að draga úr slysum

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.

Samtök ferðaþjónustunnar (SAF) hafa lengi kallað eftir því við stjórnvöld að auka svigrúm varðandi notkun negldra hjólbarða á bílaleigubílum til að auka öryggi í umferðinni. Í erindi til samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra sem SAF sendu á dögunum er þessi skoðun ítrekuð. Frá þessu segir í tilkynningu.

Þar segir m.a. að öryggi sé grunnur að gæðum í ferðaþjónustu og aldrei megi gefa afslátt þegar kemur að því að tryggja öryggi í umferðinni.

Samkvæmt reglugerð um gerð og búnað ökutækja er heimilt að keyra um á negldum hjólbörðum á tímabilinu 1. nóvember til og með 14. apríl. SAF kalla eftir því að heimilt verði að nota neglda hjólbarða undir bílaleigubíla á tímabilinu frá 1. september til og með 31. maí.

Þurfa að byrja í mars til að geta klárað dekkjaskipti

„SAF hafa löngum verið þess sinnis að stór þáttur í að gæta að öryggi vegfarenda hér á landi er að heimila bílaleigum að bjóða til leigu ökutæki á nagladekkjum þegar þess er þörf. Það kallar á aukið svigrúm miðað við það sem reglur gera ráð fyrir í dag. Þörf fyrir aukið svigrúm tilhanda bílaleigum skýrist m.a. af miklum fjölda ökutækja og tímafreku starfi dekkjaskipta en ekki síður af því að mikil hálka og erfið færð getur skapast og hefur skapast utan núgildandi tímabils nagladekkja.

Yfir vetrartímann telur bílaleiguflotinn hér á landi um 20 þúsund bifreiðar. Gróflega má ætla að dekkjaskipti þurfi að eiga sér stað á allt að fimm þúsund bílaleigubílum hvert haust og vor. Reynslan sýnir að það tekur bílaleigur um sex vikur að ljúka dekkjaskiptum á öllum þeim flota. Til að ljúka við dekkjaskipti fyrir 15. apríl ár hvert má ætla að bílaleigur þurfi að hefja dekkjaskipti upp úr miðjum marsmánuði. Í ljósi umferðaröryggissjónarmiða er það vitaskuld ekki raunhæft, enda geta veður verið válynd á Íslandi eins og þekkt er.

Samtök ferðaþjónustunnar skora því á samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra að gera breytingar á reglugerð þannig að erlendir ferðamenn geti ekið um á bílaleigubílum búnum öruggasta búnaði á því tímabili þar sem aðstæður geta verið erfiðar.“