Vill setja fjármálakerfið í verkfall: Skrúfa fyrir allar fjárfestingar

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að verkalýðsfélögin hafi þróast á undanförnum árum úr því að vera grasrótarsamtök yfir í það að vera fjárhagsleg stórveldi. Hann vill að verkalýðshreyfingin nýti áhrif sín innan lífeyrissjóðanna þegar samningar losna og setja fjármálakerfið í verkfall. Skrúfað verði fyrira allar fjárfestingar í atvinnulífinu til að knýja á um samninga á vinnumarkaði.

Þetta kom fram í fréttaskýringaþættinum Kveik í Ríkissjónvarpinu í kvöld þar sem rætt var við formann VR, Sólveigu Önnu Jónsdóttur formann Eflingar og Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands.

Ragnar Þór sagði að verkalýðshreyfingin standi í ákveðnu stríði við vinnuveitendur og ríkisvaldið um rétt fólks til að lifa mannsæmandi lífi. Hann kveðst bjartsýnn á að aðilar nái saman, en auðvitað sé hann búinn að hugsa þann möguleika að til átaka geti komið.

Hann segir að margt geti þar komið til. Sem dæmi megi nota fjármagnstekjur vinnudeilusjóðanna til að fjármagna vinnustöðvarnir og skæruhernað einstakra hópa. 

„Við getum haft gífurleg áhrif, ef við viljum,“ segir Ragnar Þór.

Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar / Mynd: Sósíalistaflokkurinn.

Sólveig Anna sagði markmiðið að byggja upp samfélag sem allir geti verið stoltir af því að tilheyra. Fólk þurfi að vera í mikilli afneitun til að viðurkenna ekki misskiptinguna í samfélaginu.

„Stórátök og verkföll þurfa ekki að vera slæm. Í sögulegu samhengi hafa þau oft skilað miklum samfélagsumbótum,“ sagði hún.